Jota hetja Liverpool í ótrúlegum leik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Diogo Jota reyndist hetja Liverpool í dag.
Diogo Jota reyndist hetja Liverpool í dag. Michael Regan/Getty Images

Liverpool vann ótrúlegan 4-3 sigur er liðið tók á móti Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Liverpool byrjaði leikinn af miklum krafti og í raun ótrúlegt að gestirnir hafi hótað því að stela stigi.

Heimamenn fóru gríðarlega vel af stað og Curtis Jones kom Liverpool í forystu strax á þriðju mínútu leiksins eftir stoðsendingu frá Trent Alexander-Arnold. Tveimur mínútum síðar var staðan svo orðin 2-0 eftir mark frá Luis Diaz og útlitið orðið svart fyrir gestina.

Heimamenn bættu svo gráu ofan á svart stuttu síðar þegar Mohamed Salah skoraði þriðja mark Liverpool af vítapunktinum eftir að Cristian Romero gerðist brotlegur innan vítateigs.

Gestirnir gáfust þó ekki upp og Harry Kane minnkaði muninn fyrir Tottenham eftir fyrirgjöf frá Ivan Perisic stuttu fyrir hálfleik og staðan var því 3-1 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Lundúnaliðið sýndi svo mikinn karakter í síðari hálfleik og virtist alltaf líklegra til að skora fimmta mark leiksins. Liðið átti til að mynda tvö skot í stöng, en lengi vel leit þó út fyrir að boltinn myndi bara ekki fara inn þennan daginn.

Það tókst þó loksins á 77. mínútu þegar Cristian Romero fann Heung Min-Son inn fyrir vörn heimamanna og Kóreumaðurinn kláraði færið vel.

Það var svo varamaðurinn og fyrrum Everton-maðurinn Richarlison sem virtist ætla að stela stigi fyrir Tottenham þegar hann skallaði aukaspyrnu Son í netið á þriðju mínútu uppbótartíma og allt ætlaði um koll að keyra hjá stuðningsmönnum Tottenham.

Heimamenn héldu þó ró sinni og nýttu sér skelfileg mistök Lucas Moura sem var kominn í bakvörðinn og Diogo Jota tryggðu Liverpool ótrúlegan sigur á síðustu andartökum leiksins.

Niðurstaðan því ótrúlegur 4-3 sigur Liverpool sem nú situr í fimmta sæti deildarinnar með 56 stig eftir 33 leiki, tveimur stigum meira en Tottenham sem situr í sjötta sæti og hefur leikið einum leik meira. Liverpool er því enn með í baráttunni um Meistaradeildarsæti, en liðið er sjö stigum á eftir Manchester United sem situr í fjórða sæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira