Umfjöllun og viðtöl: Þór Þorlákshöfn - Valur 94-103 | Íslandsmeistararnir knúðu fram oddaleik Siggeir Ævarsson skrifar 30. apríl 2023 22:40 Callum Lawson spilaði áður með Þór Þorlákshöfn. Hann var stigahæstur Valsara í kvöld með 22 stig. Vísir/Bára Dröfn Eftir frábæra byrjun Þórsara unnu Íslandsmeistarar Vals nokkuð sanngjarnan endurkomusigur er liðin mættust í fjórða leik undanúrslitaeinvígis Subway-deildar karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur 94-103 og við erum á leið í oddaleik. Eftir frábæra byrjun hjá heimamönnum þar sem þeir létu þristunum rigna og komust í 12-2 og síðan í 25-12 vöknuðu Valsmenn loks af værum blundi. Mörg lið hefðu vafalaust brotnað niður við þetta mótlæti en Valsmenn sýndu úr hverju þeir eru gerðir og kannski líka af hverju þeir eru ríkjandi Íslandsmeistarar. Þeir löguðu stöðuna í 27-22 áður en leikhlutinn var á enda og tóku síðan öll völd á vellinum í 2. leikhluta. Skotin fóru að detta og litlu hlutirnir að falla með þeim meðan fátt gekk upp hjá Þórsurum. Þeir skoruðu aðeins 15 stig í leikhlutanum og Valsarar leiddu í hálfleik með 17 stigum, staðan 42-59. Jordan Semple sem meiddist í síðasta leik gat lítið beitt sér í upphafi leiks. Byrjaði á bekknum og tók aðeins tvö skot í fyrri hálfleik, bæði slök. Augljóst að öxlin er ennþá að angra hann. Callum Lawson og Pablo Bertone fóru fyrir liði Vals í fyrri hálfleik, Lawson með 14 stig, þar af þrjá þrista, og Pablo með ellefu, átta fráköst og fjórar stoðsendingar. Valsmenn að kroppa framlag úr flestum áttum í fyrri hálfleik. Valsarar lögðu grunninn að sigrinum í 2. leikhluta sem þeir unnu með 22 stigum og það bil tókst Þórsurum aldrei að brúa. Þeir reyndu þó vissulega sitt besta en voru alltaf að elta sem útheimti mikla orku. Vincent Shahid, sem var frá í síðasta leik vegna veikinda, var sennilega ekki orðinn algjörlega frískur og virkaði þreyttur undir lokin. Þórsarar minnkuðu muninn í níu stig í upphafi fjórða leikhluta, en í hvert sinn sem þeir settu stóra þrista svöruðu Valsarar í sömu mynt. Bilið var einfaldlega of breitt. Lokatölur í Þorlákshöfn 94-103, sanngjörn úrslit og Valsmenn búnir að tryggja sér oddaleik, eftir að hafa lent 2-0 undir í einvíginu. Callum Lawson að loka leiknum og við erum á leiðinni í oddaleik á þriðjudaginn kemur. #subwaydeildin #körfubolti #bestasætið pic.twitter.com/SIesfryav2— Stöð 2 Sport (@St2Sport) April 30, 2023 Af hverju vann Valur? Þeir tryggðu þetta í raun í 2. leikhluta. Barátta Valsmanna var til fyrirmyndar og 22 sóknarfráköst gáfu þeim ansi marga auka sénsa. Þeir fengu framlag frá öllum sem komu inn á og stóru skotin duttu þegar á reyndi, en þeir enduðu með 50 prósent nýtingu fyrir utan. Hverjir stóðu upp úr? Styrmir Snær Þrastarson var lang stigahæstur á vellinum með 32 stig, sex fráköst og sjö stoðsendingar. Vincent Shahid kom næstur með 21 stig, en hann skaut mikið og hitti illa. JÆÆÆÆJA STYRMIR...... #subwaydeildin #körfubolti #bestasætið pic.twitter.com/lpZXaOUW2C— Stöð 2 Sport (@St2Sport) April 30, 2023 Hjá Valsmönnum var Callum Lawson stigahæstur með 22 stig, en hann hitti úr fimm þriggjastiga skotum í sjö tilraunum. Kristófer Acox var frábær í kvöld, reif niður 19 fráköst og bætti við 14 stigum. Pablo Bertone var einnig drjúgur með 18 stig, tíu fráköst og sex stoðsendingar. Tölfræði sem vekur athygli Þórsarar voru aðeins með átta fráköst alls í fyrri hálfleik, þar af ekki eitt einasta sóknarfrást. Þeir bættu aðeins í í seinni hálfleik og enduðu með 28 fráköst, en alls tóku Valsarar 51 frákast í leiknum, þar af 22 sóknarfröst, sem er ótrúleg tölfræði. Hvað gekk illa? Jordan Semple gekk illa að komast í takt við leikinn. Hann forðaðist allar snertingar og var bara eins og áhorfandi þær fáu mínútur sem hann spilaði. Heilt yfir gekk Þórsurum illa að ná upp þeirri baráttu sem þeir eru þekktir fyrir. Hvað gerist næst? Við erum að fara í oddaleik í Origo-höllinni á Hlíðarenda á þriðjudaginn! Það er enginn árangur að vera í 2-2. Þetta snýst um að vinna þrjá leiki Finnur Freyr Stefánsson er ennþá algjörlega jarðtengdur þrátt fyrir tvo sigra í röðVísir/Bára Dröfn Þrátt fyrir góða byrjun Þórsara í leiknum í kvöld létu Valsmenn ekki slá sig út af laginu. Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, sagði að það hefði fátt komið honum á óvart við þessa byrjun, en hans menn hefðu verið viðbúnari í þetta skiptið samanborðið við síðasta leik í Þorlákshöfn. „Við vitum alveg hvernig Þórsarnir eru. Þeir eru búnir að vera frábærir hérna í Höfninni og skjóta alltaf rosalega vel hérna. Þetta er í raun sama byrjun og átti sér stað í leik tvö, við vorum kannski aðeins klárari í það, vissum hvað við vorum að fara út í.“ Finnur gat ekki bent á neitt eitt sem skóp sigurinn í kvöld, litlir hlutir hér og þar hefðu talið saman. Svo var það auðvitað 2. leikhluti þar sem Valsmenn voru frábærir í vörn og sókn. „Bara hér og þar sko. Einn hlutur hér og einn hlutur þar í hörkuleik. Við náum að opna þá ágætlega í 2. leikhluta á sama tíma og við erum að ná stoppum. Þeir skora hérna 27 stig á fyrstu 7-8 mínútunum en svo náum við að halda þeim í einhverjum töluvert minna á næstu 13 mínútum fram að hálfleik.“ „Svo byrjar seinni hálfleikur svolítið á því að liðin eru að skiptast á körfum en sem betur fer náðum við að halda þessum mun, en svo datt þetta kannski full mikið niður fyrir minn smekk. Svo bara þetta bara seinna skot hér og þar og við náðum stoppum hinumegin.“ Valsmenn náðu ótrúlegum fjölda frákasta í kvöld og voru á köflum með jafn mörg sóknar- og varnarfráköst. Það er tölfræði sem sést ekki oft í körfubolta. „Við vorum að ná þannig skotum að við vorum klárari að fara í fráköstin. Mér fannst, sérstaklega í fyrstu tveimur leikjum, við vera að flýta okkur full mikið í skotunum þannig að hinir fjórir á vellinum voru kannski ekki klárir að fara í fráköst.“ „Það var aðeins meiri þolinmæði núna. Þeir voru að falla af Hjálmari og voru að falla hér og þar inn sem býr til línur fyrir hann að fara inn og mér fannst hann gera mjög vel í því.“ Þolinmæði rammar leikinn kannski ágætlega inn. Valsmenn voru skynsamir í sínum sóknaraðgerðum og grimmir í að sækja sóknarfráköstin. „Þau eru líka bara öðruvísi þegar þú ert búinn að vera í smá takti og færð hann í öðrum takti en þvingað af driplinu. En þetta var bara hörkuleikur, Þórsararnir komu gríðarlega grimmir inn í seinni hálfleik og Styrmir gerði vel í að reyna að sprengja okkur upp. Við náðum aðeins að binda hann meira niður og þá varð þetta aðeins flóknara.“ Finnur vildi ekki gera mikið úr því að vera kominn til baka úr stöðunni 2-0. „Það er enginn árangur að vera í 2-2. Þetta snýst um að vinna þrjá leiki. Við grófum okkar ansi djúpa holu og við erum ekki búnir að gera neitt annað en að vinna okkur inn þennan oddaleik heima. Nú fáum við að fara á okkar heimavöll á þriðjudaginn og vonandi fáum við fullt af fólki.“ Leit út fyrir að við vildum ekkert vera að spila körfu hérna á tímabili Styrmir Snær var stigahæstur Þórsara í kvöld og ekkert þreyttur, til í að spila strax aftur í kvöld þess vegnaVísir/Diego Það má segja að Valsmenn hafi fellt Þórsara svolítið á eigin bragði í kvöld, með baráttu og ákefð. Styrmir Snær Þrastarson, leikmaður Þórs, kannaðist lítið við liðið sem var inni á vellinum á köflum í fyrri hálfleik. „Við byrjuðum mjög vel en svo slöppuðum við bara af sem er náttúrulega ekki boðlegt. Spiluðum ekki góðan körfubolta og það leit út fyrir að við vildum ekkert vera að spila körfu hérna á tímabili í fyrri hálfleik. En svo spiluðum við með einhverri geðveiki í seinni og náðum að saxa þetta niður. Við þurfum bara að spila þannig í næsta leik.“ Fyrir utan þennan skelfilega 2. leikhluta, þá var ekki langt á milli liðanna í kvöld og ekki margt sem Þórsarar þurfa að kippa í liðinn fyrir næsta leik. Í raun bara eitt að mati Styrmis. „Bara varnarleikur eitt, tvö og þrjú. Við þurfum bara að spila miklu betri vörn. Bæði einn á einn og hjálparvörn. Við vorum ekki að fara eftir leikskipulaginu í dag og það er ástæðan fyrir að við töpuðum hérna.“ Nú er stutt í næsta leik og sumir leikmenn Þórsara lemstraðir. Ná menn að jafna sig fyrir þriðjudaginn? „Ég ætla að vona að menn geti gert það. Sjálfur er ég bara 21 árs þannig að það væri ekkert mál.“ Strax aftur á morgun þess vegna? „Bara núna.“ - sagði Styrmir að lokum, greinilega ennþá fullur af orku sem hann mun vonandi koma með í leikinn á þriðjudaginn, þar sem tímabilið verður undir hjá báðum liðum. Körfubolti Subway-deild karla Þór Þorlákshöfn Valur
Eftir frábæra byrjun Þórsara unnu Íslandsmeistarar Vals nokkuð sanngjarnan endurkomusigur er liðin mættust í fjórða leik undanúrslitaeinvígis Subway-deildar karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur 94-103 og við erum á leið í oddaleik. Eftir frábæra byrjun hjá heimamönnum þar sem þeir létu þristunum rigna og komust í 12-2 og síðan í 25-12 vöknuðu Valsmenn loks af værum blundi. Mörg lið hefðu vafalaust brotnað niður við þetta mótlæti en Valsmenn sýndu úr hverju þeir eru gerðir og kannski líka af hverju þeir eru ríkjandi Íslandsmeistarar. Þeir löguðu stöðuna í 27-22 áður en leikhlutinn var á enda og tóku síðan öll völd á vellinum í 2. leikhluta. Skotin fóru að detta og litlu hlutirnir að falla með þeim meðan fátt gekk upp hjá Þórsurum. Þeir skoruðu aðeins 15 stig í leikhlutanum og Valsarar leiddu í hálfleik með 17 stigum, staðan 42-59. Jordan Semple sem meiddist í síðasta leik gat lítið beitt sér í upphafi leiks. Byrjaði á bekknum og tók aðeins tvö skot í fyrri hálfleik, bæði slök. Augljóst að öxlin er ennþá að angra hann. Callum Lawson og Pablo Bertone fóru fyrir liði Vals í fyrri hálfleik, Lawson með 14 stig, þar af þrjá þrista, og Pablo með ellefu, átta fráköst og fjórar stoðsendingar. Valsmenn að kroppa framlag úr flestum áttum í fyrri hálfleik. Valsarar lögðu grunninn að sigrinum í 2. leikhluta sem þeir unnu með 22 stigum og það bil tókst Þórsurum aldrei að brúa. Þeir reyndu þó vissulega sitt besta en voru alltaf að elta sem útheimti mikla orku. Vincent Shahid, sem var frá í síðasta leik vegna veikinda, var sennilega ekki orðinn algjörlega frískur og virkaði þreyttur undir lokin. Þórsarar minnkuðu muninn í níu stig í upphafi fjórða leikhluta, en í hvert sinn sem þeir settu stóra þrista svöruðu Valsarar í sömu mynt. Bilið var einfaldlega of breitt. Lokatölur í Þorlákshöfn 94-103, sanngjörn úrslit og Valsmenn búnir að tryggja sér oddaleik, eftir að hafa lent 2-0 undir í einvíginu. Callum Lawson að loka leiknum og við erum á leiðinni í oddaleik á þriðjudaginn kemur. #subwaydeildin #körfubolti #bestasætið pic.twitter.com/SIesfryav2— Stöð 2 Sport (@St2Sport) April 30, 2023 Af hverju vann Valur? Þeir tryggðu þetta í raun í 2. leikhluta. Barátta Valsmanna var til fyrirmyndar og 22 sóknarfráköst gáfu þeim ansi marga auka sénsa. Þeir fengu framlag frá öllum sem komu inn á og stóru skotin duttu þegar á reyndi, en þeir enduðu með 50 prósent nýtingu fyrir utan. Hverjir stóðu upp úr? Styrmir Snær Þrastarson var lang stigahæstur á vellinum með 32 stig, sex fráköst og sjö stoðsendingar. Vincent Shahid kom næstur með 21 stig, en hann skaut mikið og hitti illa. JÆÆÆÆJA STYRMIR...... #subwaydeildin #körfubolti #bestasætið pic.twitter.com/lpZXaOUW2C— Stöð 2 Sport (@St2Sport) April 30, 2023 Hjá Valsmönnum var Callum Lawson stigahæstur með 22 stig, en hann hitti úr fimm þriggjastiga skotum í sjö tilraunum. Kristófer Acox var frábær í kvöld, reif niður 19 fráköst og bætti við 14 stigum. Pablo Bertone var einnig drjúgur með 18 stig, tíu fráköst og sex stoðsendingar. Tölfræði sem vekur athygli Þórsarar voru aðeins með átta fráköst alls í fyrri hálfleik, þar af ekki eitt einasta sóknarfrást. Þeir bættu aðeins í í seinni hálfleik og enduðu með 28 fráköst, en alls tóku Valsarar 51 frákast í leiknum, þar af 22 sóknarfröst, sem er ótrúleg tölfræði. Hvað gekk illa? Jordan Semple gekk illa að komast í takt við leikinn. Hann forðaðist allar snertingar og var bara eins og áhorfandi þær fáu mínútur sem hann spilaði. Heilt yfir gekk Þórsurum illa að ná upp þeirri baráttu sem þeir eru þekktir fyrir. Hvað gerist næst? Við erum að fara í oddaleik í Origo-höllinni á Hlíðarenda á þriðjudaginn! Það er enginn árangur að vera í 2-2. Þetta snýst um að vinna þrjá leiki Finnur Freyr Stefánsson er ennþá algjörlega jarðtengdur þrátt fyrir tvo sigra í röðVísir/Bára Dröfn Þrátt fyrir góða byrjun Þórsara í leiknum í kvöld létu Valsmenn ekki slá sig út af laginu. Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, sagði að það hefði fátt komið honum á óvart við þessa byrjun, en hans menn hefðu verið viðbúnari í þetta skiptið samanborðið við síðasta leik í Þorlákshöfn. „Við vitum alveg hvernig Þórsarnir eru. Þeir eru búnir að vera frábærir hérna í Höfninni og skjóta alltaf rosalega vel hérna. Þetta er í raun sama byrjun og átti sér stað í leik tvö, við vorum kannski aðeins klárari í það, vissum hvað við vorum að fara út í.“ Finnur gat ekki bent á neitt eitt sem skóp sigurinn í kvöld, litlir hlutir hér og þar hefðu talið saman. Svo var það auðvitað 2. leikhluti þar sem Valsmenn voru frábærir í vörn og sókn. „Bara hér og þar sko. Einn hlutur hér og einn hlutur þar í hörkuleik. Við náum að opna þá ágætlega í 2. leikhluta á sama tíma og við erum að ná stoppum. Þeir skora hérna 27 stig á fyrstu 7-8 mínútunum en svo náum við að halda þeim í einhverjum töluvert minna á næstu 13 mínútum fram að hálfleik.“ „Svo byrjar seinni hálfleikur svolítið á því að liðin eru að skiptast á körfum en sem betur fer náðum við að halda þessum mun, en svo datt þetta kannski full mikið niður fyrir minn smekk. Svo bara þetta bara seinna skot hér og þar og við náðum stoppum hinumegin.“ Valsmenn náðu ótrúlegum fjölda frákasta í kvöld og voru á köflum með jafn mörg sóknar- og varnarfráköst. Það er tölfræði sem sést ekki oft í körfubolta. „Við vorum að ná þannig skotum að við vorum klárari að fara í fráköstin. Mér fannst, sérstaklega í fyrstu tveimur leikjum, við vera að flýta okkur full mikið í skotunum þannig að hinir fjórir á vellinum voru kannski ekki klárir að fara í fráköst.“ „Það var aðeins meiri þolinmæði núna. Þeir voru að falla af Hjálmari og voru að falla hér og þar inn sem býr til línur fyrir hann að fara inn og mér fannst hann gera mjög vel í því.“ Þolinmæði rammar leikinn kannski ágætlega inn. Valsmenn voru skynsamir í sínum sóknaraðgerðum og grimmir í að sækja sóknarfráköstin. „Þau eru líka bara öðruvísi þegar þú ert búinn að vera í smá takti og færð hann í öðrum takti en þvingað af driplinu. En þetta var bara hörkuleikur, Þórsararnir komu gríðarlega grimmir inn í seinni hálfleik og Styrmir gerði vel í að reyna að sprengja okkur upp. Við náðum aðeins að binda hann meira niður og þá varð þetta aðeins flóknara.“ Finnur vildi ekki gera mikið úr því að vera kominn til baka úr stöðunni 2-0. „Það er enginn árangur að vera í 2-2. Þetta snýst um að vinna þrjá leiki. Við grófum okkar ansi djúpa holu og við erum ekki búnir að gera neitt annað en að vinna okkur inn þennan oddaleik heima. Nú fáum við að fara á okkar heimavöll á þriðjudaginn og vonandi fáum við fullt af fólki.“ Leit út fyrir að við vildum ekkert vera að spila körfu hérna á tímabili Styrmir Snær var stigahæstur Þórsara í kvöld og ekkert þreyttur, til í að spila strax aftur í kvöld þess vegnaVísir/Diego Það má segja að Valsmenn hafi fellt Þórsara svolítið á eigin bragði í kvöld, með baráttu og ákefð. Styrmir Snær Þrastarson, leikmaður Þórs, kannaðist lítið við liðið sem var inni á vellinum á köflum í fyrri hálfleik. „Við byrjuðum mjög vel en svo slöppuðum við bara af sem er náttúrulega ekki boðlegt. Spiluðum ekki góðan körfubolta og það leit út fyrir að við vildum ekkert vera að spila körfu hérna á tímabili í fyrri hálfleik. En svo spiluðum við með einhverri geðveiki í seinni og náðum að saxa þetta niður. Við þurfum bara að spila þannig í næsta leik.“ Fyrir utan þennan skelfilega 2. leikhluta, þá var ekki langt á milli liðanna í kvöld og ekki margt sem Þórsarar þurfa að kippa í liðinn fyrir næsta leik. Í raun bara eitt að mati Styrmis. „Bara varnarleikur eitt, tvö og þrjú. Við þurfum bara að spila miklu betri vörn. Bæði einn á einn og hjálparvörn. Við vorum ekki að fara eftir leikskipulaginu í dag og það er ástæðan fyrir að við töpuðum hérna.“ Nú er stutt í næsta leik og sumir leikmenn Þórsara lemstraðir. Ná menn að jafna sig fyrir þriðjudaginn? „Ég ætla að vona að menn geti gert það. Sjálfur er ég bara 21 árs þannig að það væri ekkert mál.“ Strax aftur á morgun þess vegna? „Bara núna.“ - sagði Styrmir að lokum, greinilega ennþá fullur af orku sem hann mun vonandi koma með í leikinn á þriðjudaginn, þar sem tímabilið verður undir hjá báðum liðum.
Uppgjörið: KR - Grindavík 120-112 | KR fór með sigur úr framlengingu gegn fáliðuðum Grindvíkingum