Menning

Hönnunar­Mars í dag: DesignTalks, kyn­lífs­leik­föng og pítsu­stund

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Stúdíó Flétta og Ýrúrarí bjóða upp á Pítsustund í Gallery Port í dag. Viðburðurinn er hluti af HönnunarMars.
Stúdíó Flétta og Ýrúrarí bjóða upp á Pítsustund í Gallery Port í dag. Viðburðurinn er hluti af HönnunarMars. Sunna Ben

HönnunarMars hefst með pomp og prakt í dag við hátíðlega athöfn í Hörpu. Það verður ýmislegt listrænt og lifandi í boði næstu daga í tengslum við hátíðina en Lífið á Vísi fer fer hér í grófum dráttum yfir dagskrána fyrir daginn í dag.

Alþjóðlega ráðstefnan DesignTalks fer fram í Hörpunni í dag frá klukkan níu til fjögur. Þar munu sérfræðingar á sviðum hönnunar, arkitektúrs og listar hvaðan af úr heiminum halda erindi sem nálgast núið og framtíðina á skapandi hátt.

Það verður líf og fjör um allan bæ í kvöld, þar á meðal á Hafnartorgi og í Ásmundarsal. 

FÓLK Reykjavík verður með opnunarhóf á Hafnartorgi frá klukkan 18:00-20:00 þar sem þau sýna húsgagna- og vöruhönnun en FÓLK var valið Besta fjárfesting í hönnun á Hönnunarverðlaunum Íslands árið 2022. 

Á sama tíma opnar tilraunakennd sýning sem ber heitið Fró(u)n, sem er hönnunarrannsókn sem hefur það að markimiði að búa til kynlífsleikföng úr postulíni og íslenskum leir.

Sýningin Innsýni opnar einnig á Hafnartorgi í kvöld með lifandi tónlist og fjöri. Markmið sýningarinnar er að kynna unga og nýútskrifaða íslenska hönnuði fyrir íslenskum og erlendum markaði. 

Sýningin Innsýni opnar á Hafnartorgi í dag.HönnunarMars

Í Gallery Porti verða svo tvær opnanir, Pítsustund með Fléttu og Ýrúrarí og Blíður ljómi. Þar verður hægt að panta sér þæfða pizzu og kíkja inn í draumkenndan heim. 

Sýningin Litir og ljós x NYC eftir textílhönnuðinn og listakonuna Evu Thoru opnar í versluninni STEiNUNN, Grandagarði 17, klukkan 17:00 í dag. Eva Thora er fædd á Íslandi en búið í New York borg síðan hún var barn og hafa báðir staðir mótað hennar listsköpun. 

Hér má svo nálgast nánari upplýsingar um dagskrána fyrir daginn í dag. Gleðilegan HönnunarMars.


Tengdar fréttir

Hönnunar­Mars hefst á morgun: 100 sýningar og 400 þátt­tak­endur

Opnunarhóf HönnunarMars fer fram á morgun, miðvikudaginn 3. maí, í Hörpu klukkan 17:00. Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs setja hátíðina með formlegum hætti og eru öll velkomin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×