Innlent

Milljóna­tjón Sam­stöðvarinnar eftir inn­brot í nótt

Bjarki Sigurðsson skrifar
Gunnar Smári Egilsson er ábyrgðarmaður frétta hjá Samstöðinni. Svona leit stúdíóið út fyrir innbrotið.
Gunnar Smári Egilsson er ábyrgðarmaður frétta hjá Samstöðinni. Svona leit stúdíóið út fyrir innbrotið. Samstöðin/Vísir/Vilhelm

Brotist var inn í höfuðstöðvar fjölmiðilsins Samstöðvarinnar í Bolholti í Reykjavík í nótt og flestum tækjum stolið eða þau eyðilögð. Ábyrgðarmaður frétta Samstöðvarinnar segir að tjónið hlaupi á milljónum. 

„Það var einhver sem hefur komið inn, við höldum að það hafi verið í gegnum bakdyr sem einhver náði að spenna upp. Það var búið að taka dótið, klippa á kapla. Þannig það tekur okkur dálítinn tíma að ná þessu upp aftur,“ segir Gunnar Smári Egilsson, ábyrgðarmaður frétta Samstöðvarinnar og formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins, í samtali við fréttastofu. 

Í frétt á vef Samstöðvarinnar segir að þeim þyki það ólíklegt að innbrotið hafi verið framið einungis í auðgunarskyni þar sem ekki svo mikið fáist fyrir græjurnar. Þá hafi einnig verið framin skemmdarverk, til dæmis voru kaplar klipptir í sundur.

Gunnar Smári segir að fyrir Samstöðina nemi tjónið einhverjum milljónum. 

„Ég kann ekki alveg að meta það. Við höfum verið að safna þessu stykki fyrir stykki. Ég myndi halda að þetta væru svona 2 til þrjár milljónir. Við erum eitthvað tryggð en við fáum þetta ekkert bætt frá tryggingunum,“ segir Gunnar Smári. 

Þetta mun setja útsendingar í uppnám um tíma að sögn Gunnars Smára en þegar fólk er búið að jafna sig á þessu ætlar það að setjast niður og sjá hvaða möguleika þau hafa. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×