Körfubolti

Pa­vel hvetur til stillingar: Já­kvæðni á sam­fé­lags­miðlum, kaffi­stofum og ekki síst vellinum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pavel Ermolinskij vill að fólk beini orkunni í jákvæðan farveg.
Pavel Ermolinskij vill að fólk beini orkunni í jákvæðan farveg. Vísir/Bára Dröfn

Pavel Ermolinski, þjálfari Tindastóls, hefur hvatt stuðningsfólk liðsins að sína stillingu en liðið er í miðri rimmu gegn ríkjandi Íslandsmeisturum Vals um Íslandsmeistaratitilinn.

Pavel tók við sem þjálfari Tindastóls á miðri þessari leiktíð eftir að hafa lagt skóna í kjölfar þess að verða Íslandsmeistari með Val á síðustu leiktíð. Lærisveinar hans unnu dramatískan sigur á Hlíðarenda í fyrsta leik úrslitaeinvígis Subway deildar karla í körfubolta.

Eftir leik hefur umræða þó að mestu snúið um eitt ákveðið atvik sem átti sér stað í leiknum. Adomas Drungilas, leikmaður Tindastóls, hefur nefnilega verið kærður vegna höggsins sem hann veitti Kristófer Acox í leiknum.

Dómaranefnd KKÍ hefur eftir ábendingu nú skoðað brot Drungilas á Kristófer og vísað málinu til aga- og úrskurðarnefndar. Reikna má með niðurstöðu á morgun, þriðjudag.

Segja má að samfélagsmiðlar, spjallborð og kaffistofur séu í ljósum logum vegna atviksins og því hefur Pavel kallað eftir stillingu. Hann birti færslu á Twitter-síðu sinni fyrr í kvöld. Þar segir:

„Tindastólsfólk nær og fjær. Beinum orkunni í jákvæðan farveg. Þetta körfuboltalið þrífst best í gleði og stemningu. Leyfum öðrum að æsa upp. Jákvæðni á samfélagsmiðlum, kaffistofum og ekki síst vellinum.“

Annar leikur Tindastóls og Vals er í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport annað kvöld, þriðjudag.. Leikurinn hefst 19.15 og að honum loknum er Körfuboltakvöld á dagskrá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×