Innlent

Meintur inn­brots­þjófur reyndist kúnni í sólar­hrings­sjoppu

Atli Ísleifsson skrifar
Kúnninn var að gæða sér á mat fyrir utan sjoppuna þegar lögregla bar að garði. Myndin er úr safni.
Kúnninn var að gæða sér á mat fyrir utan sjoppuna þegar lögregla bar að garði. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út þegar tilkynnt var um yfirstandandi innbrot í sjoppu í nótt.

Í tilkynningu frá lögreglu, þar sem segir frá verkefnum gærkvöldsins og næturinnar, segir að þegar lögregla hafi borið að garði hafi meintur innbrotsþjófur verið hinn rólegasti að fá sér mat fyrir utan staðinn. Segir að málið hafi reynst á misskilningi byggt en sjoppan sé opin allan sólarhringinn og reyndist innbrotsþjófurinn vera kúnni.

Ekki eru gefnar upplýsingar um hvar umrætt atvik átti sér stað, nema að það hafi verið á svæði lögreglustöðvar 3 sem nær yfir Kópavog og Breiðholt í Reykjavík.

Í tilkynningunni frá lögreglu segir að einnig haft afskipti af ungmennum sem hafi verið að neyta fíkniefna. „Ungmennin reyndust einnig varsla eitthvert magn í tösku sem þau voru með meðferðis. Haft samband við foreldra og tilkynning send á barnavernd.“

Lögregla hafði einnig afskipti af manni vegna aksturs undir áhrifum vímuefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×