Alekhina, sem er 35 ára gömul, kom til landsins eftir lygilegan flótta frá Rússlandi í fyrra. Íslenski listamaðurinn Ragnar Kjartansson er sagður hafa sannfært ónefnt Evrópuríki að útvega henni vegabréf sem gerði henni kleift að komast beint til Litháen frá Hvíta-Rússlandi.
Shtein, sem er 26 ára gömul, komst einnig frá Rússlandi á ævintýralegan hátt í fyrra. Hún sagði breska blaðinu The Guardian að hún hafi dulbúið sig sem matarsendil til þess að flýja úr stofufangelsi í Moskvu.

Pussy Riot vakti heimsathygli þegar liðsmenn hennar trufluðu messu í Kristkirkjunni í Moskvu með gjörningi árið 2012. Alekhina var ein þriggja meðlima hópsins sem var handtekin og síðar dæmd fyrir „skrílslæti sem byggðust á trúarhatri“.
Á undanförnum misserum hefur Vladímír Pútín Rússlandsforseti sett aukna hörku í að bæla niður allt andóf í Rússlandi. Alekhina sagði New York Times í fyrra að hún hefði talið að nú væri tími til kominn að flýja land.
Fólk af ellefu þjóðernum
Alls eru átján af ellefu þjóðernum á listanum sem allsherjar- og menntamálanefnd leggur til að fái ríkisborgararétt. Auk Alekhinu eru fjórir Rússar á listanum.
Þeim til viðbótar eru tveir Íranar, tveir Indverjar, tveir Bretar, Skoti, Taílendingur, Ísraeli, Filippseyingur, Ítali, Ganverji og Bandaríkjamaður á listanum.
Sá yngsti á listanum er fimmtán ára en sá elsti sjötíu og fimm ára.
Uppfært 20:23 Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar sagði aðeins að ein liðskona Pussy Riot væri á lista allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, Mariia Alekhina. Upplýsingum um Lucy Shtein var bætt við fréttina.