Víkingur náði inn tveimur mörkum sem dugðu til sigurs í dag gegn FH í sjöundu umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu. Leiknum er best lýst sem leik tveggja hálfleika þar sem heimamenn voru betri í þeim fyrri en FH gerði mjög vel í seinni án þess að uppskera eftir erfiði.
Þó að FH hafi sýnt mikinn kraft á fyrstu mínútu leiksins þá sást fljótt að Víkingur var klárt í slaginn og tók völdinn á vellinum strax á annarri mínútu leiksins. Þeir voru ákafari í varnarleik sínum og mjög beittir í sóknaraðgerðum sínum og náðu að skapa sér mjög góðar stöður og uppskáru mark strax á sjöttu mínútu leiksins.
Karl Friðleifur Gunnarsson sendi þá boltann inn fyrir vörn FH á Birni Snæ Ingason sem var fljótur að taka ákvörðun og dúndra á markið utarlega úr teignum. Skotið var fast og beint á Sindra í markinu sem mögulega hefði átt að gera betur. Boltinn spýttist þó undir hann og í netið.
Aðdáendur heimamanna þurftu ekki að bíða nema í 15 mínútur eftir næsta marki en þar var fyrirliði Víkings, Nikolaj Hansen á ferðinni. Gestirnir voru manni færri þar sem Eggert Gunnþór var farinn af velli meiddur en ekki var búið að skipta manni inn á fyrir hann. Karl Friðleifur komst upp að endamörkum, sneri við, fann Erling Agnarsson sem gaf geggjaða sendingu fyrir og Nikolaj reis hæst og yfir varnarmann FH og stangaði boltann í netið.
Eftir seinna markið reyndu FH-ingar eins og þeir gátu að þrýsta sér framar en höfðu ekki erindi sem erfiði.
Kjartan Henry Finnbogason virkaði mjög pirraður eftir seinna mark Víkings og má teljast heppinn að hafa hangið inn á áður en flautað var til hálfleiks. Eitt skiptið þá var brotið á Kjartani og brást hann við því með því að sparka í áttina að Birni Snæ og mátti minnstu muna að takkarnir færu í andlitið á Birni og með réttu hefði verið hægt að refsa Kjartani.
Síðar í fyrri hálfleik gaf Kjartan Nikolaj Hansen olnbogaskot í andlitið með þeim afleiðingum að Nikolaj fékk miklar blóðnasir og aftur hefði mátt refsa Kjartani fyrir en hann slapp með skrekkinn.
Víkingur leiddi með tveimur mörkum í hálfleik og var forskotið mjög verðskuldað því ekki komust FH-ingar nálægt heimamönnum hvorki í vörn né sókn.
Það átti eftir að breytast í seinni hálfleik. Fótboltinn varð minni en þeim mun meiri barátta einkenndi leikinn framan af hálfleiknum en eftir því sem leið á fóru gestirnir að færa sig upp á skaftið. Ingvar Jónsson, sem hafði haft lítið að gera í fyrri hálfleik, þurfti að mæta til leiks og varði tvisvar mjög vel frá Kjartani Henry og Úlfi Ágústi Björnssyni ásamt því að grípa vel inn í og kýla þá bolta í burtu sem bárust inn á teiginn.
Mark frá FH lá í loftinu lengi en mennirnir úr Hafnarfirði náðu ekki að uppskera og þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum lauk þeim möguleika þegar Finn Orra Margeirssyni var vikið af velli. Hann var kominn með gult spjald en straujaði Gísla Gottskálk Þórðarson, sem þurfti að fara af velli, en dómari leiksins sá sér ekki fært um annað en að sýna Finni beint rautt spjald. Við það þá dó ákafinn niður og Víkingur sigldi heim sjöunda sigrinum í röð.
Af hverju vann Víkingur?
Það má segja að Víkingur hafi mætt mikið betur til leiks, náð inn mörkunum sem dugðu til og sýnt svo og sannað það að þeir eru besta varnarlið í deildinni í síðari hálfleik. Þeir geta bæði sýnt fínu hliðarnar og þær dekkri þegar barningurinn er orðinn mikið meiri eins og varð í þessum leik.
Hvað gekk illa?
Það sköpuðust ekki mörg færi þó að æsingurinn hafi verið mikill og bæði lið bæði sýnt af sér gæði og baráttu.
Þá mætti kannski segja að dómurum leiksins hafi gengið illa að sjá það þegar menn voru að dangla í hvorn annann og þaðan af verra en þó að gul spjöld hafi verið mörg þá hefðu þau getað verið mikið fleiri.
Bestir á vellinum?
Varnarlína ásamt markverði Víkings stóð sig virkilega vel í dag. Ingvar Jónsson var mjög góður í seinni hálfleik og Oliver Ekroth var mjög góður í að verja mark sitt ásamt því að vera eins og leikstjórnandi fyrir liðið sitt.
Hvað gerist næst?
FH fer til Vestmannaeyja næst og reynir að ná í fyrsta sigur sinn á útivelli í sumar. Það er þrautinni þyngra að fara til Eyja til að ná í stig en það verður að reyna.
Víkingur fer í styttra ferðalað eða upp í efri byggðir Kópavogs til að spila við HK. Það er mikill möguleiki á því að Víkingur vinni sinn áttunda leik í röð þar.
Dýrmætt að fá traustið
Varnarmaðurinn ungi Logi Hrafn Róbertsson var skiljanlega svekktur með úrslitin hjá sínum mönnum og var á því að þetta hafi snúist um að þora að spila í kvöld gegn Víking. Þegar það hafi gerst þá hafi farið að ganga vel.
„Mér fannst við í fyrri hálfleik að við vorum svolítið hræddir. Þorðum ekki að spila boltanum og vorum ekki að mæta þeim í návígjunum. Við bættum það í seinni hálfleik og vorum mikið nær þeim. Fórum bara all-in og fórum að spila betur“, sagði Logi þegar hann var spurður hver munurinn hefði verið á liðinu í sitthvorum hálfleiknum.
Logi var spurður að því hvort FH hefði þurft að mæta tilbúnara til leiks en liðið fékk bæði mörkin á sig mjög snemma og hvort eitthvað hafi verið hægt að gera í mörkunum.
„Við verðum bara að vera klárari frá fyrstu mínútu og þetta var bara í takt við leikinn. Við vorum ekki nálægt þeim. Það gerði það að verkum að mörkin komu frá þeim.“
Er eitthvað sem Logi sér að FH geti tekið út úr leiknum?
„Við verðum að horfa á seinni hálfleikinn og vera klárari. Það er leikur á miðvikudaginn aftur og við verðum að vera klárir þá“, sagði Logi en FH mætir Njarðvíki á heimavelli í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins.
Varðandi hann sjálfan þá finnst Loga dýrmætt að honum sé sýnt það traust að spila fyrir uppeldisklúbbinn. Hann var spurður að því hvernig hann væri að finna sig í upphafi móts.
„Þetta er uppeldisklúbburinn og það er alltaf gaman að spila fyrir hann. Þegar þú ert svona ungur þá er virkilega dýrmætt að fá traustið. Það er svo undir mér komið að spila vel og þá fær maður tækifærin.“
Í fyrra þurftum við þrjú til fjögur mörk til að vinna
„Þeir breyttust í raun og veru“, sagði Oliver Ekroth þegar hann var spurður að því hver munurinn hefði verið á hálfleikunum sem voru spilaði í kvöld.
„Þeir sátu dýpra og leyfðu okkur að hafa boltann og gáfu okkur plássið. Svo komu þeir ofar á völlinn og okkur var farið kannski að líða of vel og vorum ekki að ná að hreyfa boltann eins vel og við viljum án boltans.“
Talandi um að líða vel. Víkingur fær nánast aldrei á sig mörk lengur og ræddi Oliver um hungrið og sjálfstraustið sem þarf til þess að það gangi vel.
„Við erum hungraðari í teignum okkar og erum hættir að gera heimskuleg mistök. Ef þú horfir á síðasta tímabil þá sérðu að við erum hættir að gefa boltann frá okkur í uppspilinu úr vörninni og erum beinskeyttari. Við höfum Matta [Matthías Vilhjálmsson] og Niko [Nikolaj Hansen] sem við getum nýtt okkur ef við komum okkur í klandur með löngum sendingum enda stórir strákar. Það er eitt af því sem hefur breyst og er lykilatriði. Ég veit ekki hvort fókusinn sé betri hjá okkur en við viljum vinna og höfum haldið hreinu í sex leikjum af sjö og það gerir okkur mjög ánægða. Við viljum halda því áfram enda þurfum við bara eitt mark til að vinna leikina ef við höldum hreinu. Í fyrra þurftum við þrjú til fjögur mörk til að vinna og það er erfiðara.“
Oliver var spurður hversu langt Víkingur gæti leyft sér að horfa.
„Það er kannski klisja en við horfum bara á einn leik í einu. Það er bara þannig. Það er enginn leikur auðveldur og þó að FH hafi verið í ströggli kannski í byrjun tímabils þá sýndu þeir að þeir geta skapað sér færi þegar einbeitingin fer hjá okkur. Það er mikið af erfiðum leikjum að koma og svo þegar Evrópukeppnin kemur inn í þetta þá geta hlutirnir orðið erfiðari. Öllum líður samt vel. Manni getur ekki annað en liðið vel þegar liðið vinnur og við fáum engin mörk á okkur. „Happy days“.“