Selma Sól var í byrjunarliði Rosenborg í dag sem sat í öðru sæti deildarinnar fyrr leikinn, sex stigum á eftir toppliði Vålerenga.
Á tíundu mínútu kom fyrsta mark leiksins. Það skoraði Elin Sorum eftir sendingu Selmu Sólar og Rosenborg bætti öðru marki við fimm mínútum fyrir hálfleiksflautið þegar Emilie Joramo skoraði.
Í síðari hálfleik brustu svo allar flóðgáttir. Anna Josendal skoraði þriðja markið á 54. mínútu og hún bætti öðru marki við tíu mínútum síðar. Sara Horte skoraði fimmta markið á 67. mínútu og aftur var það Selma Sól sem lagði upp.
Selma Sól fór af velli á 74. mínútu en áðurnefnd Horte setti punktinn yfir i-ið í uppbótartíma með sínu öðru marki. Lokatölur 6-0 og Rosenborg heldur í við topplið Vålerenga sem þessa stundina leikur gegn Stabæk á útivelli.