Erlent

BBC skipað að mæta fyrir yfir­rétt á Ind­landi vegna heimildar­myndar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Modi varð forsætisráðherra árið 2014.
Modi varð forsætisráðherra árið 2014. epa/Jagadeesh NV

Yfirdómstóllinn í Delhi á Indlandi hefur fyrirskipað BBC að mæta fyrir dóm í meiðyrðamáli sem samtök höfðuðu á hendur breska ríkisútvarpinu vegna heimildarmyndar um framgöngu forsætisráðherrans Narendra Modi þega óeirðir brutust út í Gujarat árið 2002.

Samkvæmt Guardian var það ónefnd stofnun sem er ekki rekin í hagnaðrskyni sem höfðaði málið á hendur BBC en miðillinn er sakaður um að ófrægja orðspor Indlands, dómskerfið og forsætisráðherrann.

Modi, sem árið 2002 var æðsti ráðherra Gujarat, hefur verið sakaður um að hafa gengið of skammt í því að stöðva óeirðirnar en hann var hreinsaður af öllum ásökunum í rannsókn sem hæstiréttur landsins fyrirskipaði.

Að minnsta kosti þúsund manns létust í óeirðunum en aðgerðasinnar segja fjölda látinna nær tvö þúsund. Flestir látnu voru múslimar.

Stjórnvöld á Indlandi hafa kallað heimildarmyndina, India: The Modi Question, „áróður“ og hindrað birtingu á myndinni og myndskeiðum úr henni á Indlandi. Indversk skattayfirvöld gerðu húsleitir á starfsstöðvum BBC í Delhi og Mumbai í febrúar síðastliðnum, eftir að myndin var sýnd.

Modi hefur hafnað þeim ásökunum sem settar eru fram í heimildarmyndinni og BBC hafnað ásökunum stjórnvalda um hlutdrægni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×