Það var danska landsliðskonan Signe Bruun, fyrrverandi leikmaður PSG, sem tryggði Lyon 1-0 sigur í gær og þar með franska meistaratitilinn en hún mun kveðja Lyon eftir tímabilið.
Eftir sigurinn er Lyon með sex stiga forskot á PSG þegar aðeins ein umferð er eftir en PSG var með örlögin í eigin höndum þar til að liðið gerði markalaust jafntefli við Paris FC í þriðju síðustu umferð og tapaði svo leiknum í gær. Í millitíðinni tapaði PSG svo 2-1 gegn Lyon í bikarúrslitaleiknum.
Berglind var ekki með í þessum leikjum og hefur raunar sjaldan verið í leikmannahópi PSG á leiktíðinni. Hún hefur aðeins komið við sögu í einum deildarleik, í september, og spilaði þá 15 mínútur, eftir að hafa verið keypt frá Brann í Noregi síðasta sumar.
Síðasti leikur sem Berglind spilaði var því með landsliðinu þegar liðið vann Pinatar-bikarinn á Spáni í febrúar.
Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari tjáði sig um stöðu Berglindar í lok mars, eftir að hún fékk ekki sæti í síðasta landsliðshópi. Þar sagði hann að sjálfsögðu áhyggjuefni að Berglind fengi engin tækifæri hjá sínu félagsliði. Hann hefði reynt að hjálpa henni með því að velja hana í febrúar en það hefði engu máli skipt.
„Að sjálfsögðu hef ég áhyggjur, það eru komnir átta mánuðir [og núna tíu mánuðir] síðan hún spilaði reglulega með félagsliði. Það er helvíti langur tími. Hún þarf að fara spila reglulega til að koma sér í gang og vera í spilformi til að geta spilað á hæsta „levelinu“,“ sagði Þorsteinn þá í viðtali við Fótbolta.net.
Samningur Berglindar við PSG, sem hún skrifaði undir síðasta sumar, gildir til sumarsins 2024.