Þegar Boeing afhenti síðustu 747-þotuna úr verksmiðjunum í febrúar var birtur listi yfir þau flugfélög heims sem rekið hefðu flestar slíkar þotur í yfir hálfrar aldar sögu hennar. Það rak eflaust marga í rogastans að sjá íslenskt flugfélag í fjórða sæti.

Covid-heimsfaraldurinn varð til þess að Air Atlanta hætti farþegaflugi um tíma og sneri sér alfarið að fraktflugi. Dæmi mátti sjá í fréttum Stöðvar 2 þegar félagið flutti lyfjafarm frá Belgíu til Suður-Afríku fyrir Magma-fraktfélagið.
Atlanta hóf endurkomu sína í farþegaflug í fyrra með pílagrímaflugi. Lending Boeing 747 í Medina í Sádí-Arabíu í gær með pílagríma frá Surabaya í Indónesíu fyrir Saudia-flugfélagið markar upphaf pílagrímaflugs Atlanta í ár.

En það eru önnur tímamót í sögu félagsins og það risastór. Þessi Boeing 777-300 við flugstöðina í Jeddah er önnur tveggja sem Atlanta er að taka í notkun þessa dagana, einnig til að flytja pílagríma fyrir Saudia. Atlanta-menn gera ráð fyrir að taka seinni 777-vélina í notkun í byrjun júnímánaðar. Þær verða skráðar á Air Atlanta Europe á Möltu, systurfélag Air Atlanta Icelandic.

Þetta er í fyrsta sinn sem flugfélag í eigu Íslendinga rekur flugvél af þessari tegund en hún tekur nærri fimmhundruð farþega í sæti, þessi nánar tiltekið 494. Hún er almennt talin helsti arftaki Boeing 747.
Triple Seven, eða þrefalda sjöan, skipar þann sess að vera stærsta tveggja hreyfla þota sögunnar. Hún er núna jafnframt stærsta flugvél heims í fjöldaframleiðslu eftir að smíði 747 og Airbus A380 var hætt.

Atlanta-flugfélagið verður í sumar með átján breiðþotur í rekstri, þar af fimm í farþegaflugi. Sextán þotur eru af gerðinni Boeing 747-400 en tvær af gerðinni Boeing 777-300. Starfsmenn félagsins, sem er með höfuðstöðvar í Kópavogi, eru núna um 600 talsins. Þar af eru um 250 Íslendingar.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: