Í marsmánuði síðastliðnum var vöruskiptajöfnuður hagstæður fyrir Evrópusambandið gagnvart Rússum. Keyptu Rússar því sem nemur 200 milljón evrum meira af Evrópusambandslöndum en þeir seldu.
Þetta er mikill viðsnúningur því í gegnum tíðina hefur Evrópa keypt langt um meira af Rússum en öfugt. Það er einkum vegna kaupa á olíu og gasi.
Meðvituð stýring
Ástæðan eru viðskiptaþvinganir Evrópusambandsins og meðvituð stýring viðskipta frá Rússlandi. Bæði af hálfu einstakra ríkja og fyrirtækja. En mörg stórfyrirtæki hafa horfið frá viðskiptum við Rússland og lokað útibúum sínum þar í landi.
Þegar innrás Rússa inn í Úkraínu hófst, í febrúar árið 2022, var vöruskiptajöfnuðurinn óhagstæður fyrir Evrópusambandið um 8 milljarða evra, eða um 1.200 milljarða íslenskra króna.
Orka frá öðrum löndum
Ólíkt því sem búast mætti við þá jókst þessi tala mjög hratt í kjölfar árásarinnar. Strax í marsmánuði í fyrra keypti Evrópusambandið því sem nemur 18,4 milljörðum meira af Rússum en öfugt.

Þetta var einkum vegna þess að verð á gasi og olíu rauk upp og Evrópa var ekki með aðrar augljósar leiðir til þess að útvega sér orku en að kaupa af Rússum. Var Evrópusambandið gagnrýnt fyrir að skrúfa ekki strax fyrir þessi viðskipti, og þar með knýja stríðsvél Rússa í Úkraínu.
En þvinganirnar hertust og hertust og Evrópa keypti í auknum mæli orku annars staðar frá. Meðal annars gas frá ríkjum Norður Afríku í gegnum leiðslur á Spáni og gas sem þétt hefur verið í vökva frá Bandaríkjunum.
Viðskiptin hrunið
Í marsmánuði árið 2022 nam innflutningur frá Rússlandi 9,5 prósentum af öllum innflutningi Evrópusambandsins. Ári seinna var hlutfallið aðeins 1,9 prósent. Útflutningur hefur einnig minnkað, úr 4 prósentum niður í 1,8. Virði þess sem Evrópa selur er hins vegar nú meira en þess sem hún kaupir.