Fótbolti

Sigur­há­tíð í Köben og dramatík í Ár­ósum

Aron Guðmundsson skrifar
Hákon Arnar lagði upp jöfnunarmark FCK í dag
Hákon Arnar lagði upp jöfnunarmark FCK í dag Vísir/Getty

Boðið var upp á mikla dramatík í lokaumferð dönsku úrvalsdeildarinnar sem kláraðist í dag með þremur leikjum. Íslendingalið AGF náði stigi gegn Bröndby og tryggði sér Evrópusætið eftirsótta.

Boðið var upp á svakalegan leik er AGF og Bröndby mættust fyrr í dag. Mikael Neville Anderson var í byrjunarliði AGF en þurfti að fara meiddur af velli á 60.mínútu. 

Leiknum lauk með 3-3 jafntefli og fóru tvö rauð spjöld á loft. Kevin Yakob var rekinn út af í liði AGF á 37. mínútu og þá fékk Kevin Mensah, leikmaður Bröndby að líta rauða spjaldið á 80. mínútu. 

Leikar stóðu 3-2 fyrir Bröndby þegar að skammt var eftir af leiknum en á 85. mínútu jafnaði Jelle Duin metin fyrir AGF.

Það reyndist lokamark leiksins og er um að ræða ansi mikilvægt stig fyrir AGF sem tryggði sér með því sæti í Sambandsdeild UEFA á næsta tímabili.

Í Kaupmannahöfn var blásið til sigurhátíðar þar sem að heimamenn í FCK, sem höfðu fyrir lokaumferðina tryggt sér danska meistaratitilinn, tóku á móti Viborg. 

Hákon Arnar Haraldsson og Ísak Bergmann Jóhannesson voru á meðal varamanna FCK í leiknum en Hákon Arnar kom inn í síðari hálfleik og átti eftir að láta til sín taka.

Stephan Odey kom Viborg yfir með marki í uppbótatíma venjulegs leiktíma í fyrri hálfleik en á 83. mínútu jafnaði Viktor Claesson metin fyrir FCK með marki eftir stoðsendingu frá Hákoni Arnari.

Það reyndist síðasta mark leiksins og lauk honum því með 1-1 jafntefli. FCK endar sem fyrr segir sem danskur meistari. Viborg nældi sér í 4. sæti deildarinnar og fer því í umspil um Evrópusæti. 

Önnur úrslit dagsins:  

Nordsjælland 0-0 Viborg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×