Erlent

Hugðust gera árás á Pride-gönguna í Vín

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Frá Pride-göngunni í fyrra.
Frá Pride-göngunni í fyrra. AP/Theresa Wey

Lögregluyfirvöld í Austurríki handtóku þrjá menn um helgina sem eru grunaðir um að hafa lagt á ráðin um árás á árlegu LGBTQ+ Pride-gönguna í Vín, sem fram fór á laugardag.

Yfir 300 þúsund manns eru sagðir hafa tekið þátt í eða fylgst með göngunni.

Mennirnir sem voru handteknir voru 14 ára, 17 ára og 20 ára. Litlar upplýsingar liggja fyrir um handtökurnar, aðrar en að lagt var hald á hnífa, öxi og loftbyssur.

Boðað var til blaðamannafundar í gær þar sem greint var frá málinu en yfirvöld sögðust hafa viljað bíða með að tilkynna um handtökurnar þar til eftir að gangan væri yfirstaðin. Markmið hryðjuverkamanna væri að sá ótta meðal almennings og það væri hlutverk lögreglu að koma í veg fyrir það.

Samkvæmt fregnum af málinu eru mennirnir með austurrískt ríkisfang en eiga uppruna sinn að rekja til Bosníu og Tjétjéníu. Þeir virðast mögulega hafa verið að svara ákalli Ríkis íslam um árásir í Evrópu en einn þeirra hafði áður komið við sögu hjá lögreglu.

Síðasta árásin í Austurríki sem var tengd Ríki íslam átti sér stað í nóvember árið 2020 þegar byssumaður lét til skarar skríða „á djamminu“ í Vín. Fjórir létust í árásinni og 23 slösuðust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×