Erlent

Á­hyggjur vegna byggingar­á­forma á Vestur­bakkanum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bandaríkjamenn segja þróun mála ekki uppbyggilegt skref í átt að friði.
Bandaríkjamenn segja þróun mála ekki uppbyggilegt skref í átt að friði. AP/Mahmoud Illean

Bandaríkjamenn segjast hafa þungar áhyggjur af þróun mála á Vesturbakkanum eftir að í ljós kom að fyrirætlanir um að byggja 4.560 nýjar íbúðir á Vestubakkanum verða teknar fyrir af Yfirskipulagsráði Ísrael í næstu viku.

Búist er við því að á fundinum verði byggingaráform fyrir 1.332 íbúðir samþykktar en aðrar eru skemur komnar í ferlinu.

Guardian hefur eftir fjármálaráðherranum Bezalel Smotrich að stjórnvöld hyggist halda áfram byggðarþróun og efla vald Ísraelsmanna á svæðinu. Hópar landnema á Vesturbakkanum hafa fagnað ákvörðuninni.

Bandaríkjamenn segjast hafa verulegar áhyggjur af stöðunni en þeir hafa hvatt ráðamenn í Ísrael til að láta af útþenslustefnu sinni til að greiða fyrir friði. Þeir hafa hvatt Ísraelsmenn til að ganga aftur að samningaborðinu en viðræður hafa verið á ís frá 2014.

Palestínsk yfirvöld hafa sagst munu bregðast við með því að sniðganga fund um efnahagsmál með Ísraelsmönnum sem átti að fara fram í dag. Fulltrúar Hamas segjast munu gera allt til að verjast yfirgangi Ísraela.

Ný samsteypustjórn forsætisráðherran Benjamin Netanyahu, sem tók við völdum í janúar, hefur lagt blessun sína yfir fleiri en 7.000 nýbyggingar á Vesturbakkanum. Þá hefur lögum verið breytt til að greiða fyrir því að fjórar landnemabyggðir sem höfðu verið rýmdar verði byggðar á ný.

Þrír Palestínumenn létust í bardögum milli byssumanna og ísraelskra hermanna í Jenin í morgun. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×