Handbolti

Öruggur sigur gegn Síle í öðrum leik heims­meistara­mótsins

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Íslenska liðið hefur unnið báða leiki sína á HM.
Íslenska liðið hefur unnið báða leiki sína á HM. HSÍ

Íslenska U21 árs landslið karla vann öruggan 17 marka sigur, 35-18, er liðið mætti Síle í öðrum leik G-riðils á heimsmeistaramótinu í handbolta sem fram fer í Þýskalandi og Grikklandi um þessar mundir.

Íslenska liðið er mun betur skipað en það síleska og um hálfgerðan skyldusigur var að ræða. Íslensku strákarnir tóku völdin snemma leiks og náðu fljótt nokkuð öruggu forskoti.

Líkt og í fyrsta leik Íslands á mótinu gekk markaskorun þó ekki jafn vel og vonast var eftir og liðið leiddi með sex mörkum þegar flautað var til hálfleiks, staðan 12-6, Íslandi í vil.

Íslensku strákarnir bættu þó úr því í síðari hálfleik og gengu í rauninni fljótt frá leiknum. Ekki var langt liðið á seinni hálfleikinn þegar Ísland náði fyrst tíu marka forskoti og niðurstaðan varð að lokum 17 marka sigur, 35-18.

Andri Finnsson var markahæstur í íslenska liðinu með sjö mörk og Einar Bragi Aðalsteinsson skoraði sex. Íslenska liðið hefur nú unnið báða leiki sína í riðlakeppninni og er búið að tryggja sér í það minnsta annað sætið. Liðið mætir Serbíu í hreinum úrslitaleik um efsta sætið eftir tvo daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×