Menning

Segja mynd­listar­á­huga al­mennings hafa aukist til muna

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Helga Björg Kjerúlf og Elísabet Alma Svendsen, eigendur Listvals, fyrir framan nýja húsnæðið.
Helga Björg Kjerúlf og Elísabet Alma Svendsen, eigendur Listvals, fyrir framan nýja húsnæðið. Vísir/Vilhelm

Listval Gallery hefur fært sig um set og opnar í nýju húsnæði næsta laugardag að Hverfisgötu 4. Samhliða því verður Listval með opnun á einkasýningu Huldu Vilhjálmsdóttur sem ber heitið „Ég er gegnsæ“. Blaðamaður tók púlsinn á Elísabetu Ölmu Svendsen og Helgu Björg Kjerúlf, eigendum Listvals.

Gróskumikil sena

Listval sérhæfir sig meðal annars í myndlistarráðgjöf og listasýningum en Elísabet Alma og Helga Björg segjast sannarlega upplifa það að áhugi almennings á myndlist hafi aukist til muna.

„Hinn stafræni heimur hefur klárlega haft þar áhrif, bæði upp á sýnileika og aðgengi að myndlist. Íslenska myndlistarsenan er gróskumikil og er mikið um metnaðarfullar sýningar í galleríum og söfnum. Allar þessar sýningar og miðlun á list vekur upp enn frekari áhuga á myndlist því sífleiri eru farnir að sýna myndlist meiri áhuga en áður.“

Segja þær að út frá því sé jafnframt auðveldara fyrir fólk að fjárfesta í myndlistinni.

„Nú sjáum við myndlist í almennum rýmum í meira mæli svo sem á veitingastöðum og hótelum. Fólk er farið að huga meira að þessum málum.“

Hulda Vilhjálmsdóttir opnar sýninguna Ég er gegnsæ í Listvali að Hverfisgötu 4 á laugardag.Listval

Algjör myndlistar stjarna

Áður var Listval til húsa bæði á Hólmaslóð og í Hörpu tónlistarhúsi en munu nú sameina starfsemina á Hverfisgötu 4.

„Hér erum með planaðar sýningar næsta árið og mjög flott dagskrá framundan, sem byrjar auðvitað á sýningu Huldu.

Hulda er algjör stjarna og merkileg listakona. Hún hefur helgað sig málaralistinni frá útskrift og er þekkt fyrir kraftmikil fígúratíf verk en í þetta sinn sýnir hún abstrakt verk sem eru ekki síður heillandi. Hulda vetir fyrir sér gagnsæinu og minnir okkur á að gefa því gaum sem er á milli hlutanna, að velta fyrir okkur mismunandi sjónarhornum og leitast við að sjá veröldina sem allt of oft er ógagnsæ og gruggug.“

Morgundögg eftir Huldu, málað 2023. Er um að ræða hluta af verki á sýningunni Ég er gegnsæ.Listval

Nýr farvegur í umboðsmennsku

Ásamt ráðgjöf og sýningum ætla þær Elísabet og Helga einnig að vinna sem umboðsaðilar fyrir listamenn ásamt því að annast endursölu listaverka.

„Kjarni starfseminnar verður þó sá sami og munum við áfram bjóða upp á úrval af myndlist og stuðla að bættu aðgengi almennings að myndlist. Hér fáum við meira rými fyrir starfsemina og þjónustu við viðskiptavini en við höfðum áður. 

Við getum við tekið vel á móti gestum, veitt leiðsögn um yfirstandandi sýningar, aðstoðað við myndlistarval og veitt ráðgjöf, allt á einum stað. Húsið er líka á frábærum stað í bænum, mjög sýnilegt og aðgengilegt,“

segja þær að lokum.

Opnunin verður frá klukkan 16:00-18:00 næstkomandi laugardag, 24. júní, og eru öll velkomin.


Tengdar fréttir

Listaverk sem fagna nýju lífi

Kristín Morthens vann verk á nýrri sýningu sinni út frá minni tilfinninga fyrir og eftir fæðingu. Sýningin opnaði síðastliðna helgi í NORR11 í samvinnu við Listval og heitir Að snerta uppsprettu.

„Alltaf fundist þessar rætur stækka mig sem manneskju“

„Ég hef haft ástríðu fyrir myndlist síðan ég man eftir mér,“ segir listakonan Áslaug Íris Katrín. Blaðamaður tók púlsinn á henni og fékk að heyra nánar frá nústandandi einkasýningum hennar og listræna lífinu.

„Myndlist er svo fjölbreytt og víðfeðm“

Listval stendur að myndlistarsýningunni Mens et Manus sem opnaði á síðastliðinn föstudaginn við hátíðlega athöfn í íslenska sendiráðinu í Kaupmannahöfn. Er sýningin sú fyrsta í röð sýninga sem Listval mun setja upp í sendiráðinu. Blaðamaður tók púlsinn á Helgu Björg Kjerúlf og Elísabetu Ölmu Svendsen, eigendum og stjórnendum Listvals.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.