Fótbolti

„Hún var bara spörkuð út úr leiknum“

Atli Arason skrifar
Pétur Pétursson er þjálfari Vals.
Pétur Pétursson er þjálfari Vals. VÍSIR/VILHELM

Pétur Pétursson, þjálfari Vals, var ekki sáttur eftir að markahæsti leikmaður Vals, Bryndís Arna Níelsdóttir, fór meidd af leikvelli í 1-1 jafntefli gegn Keflavík í Bestu-deild kvenna í kvöld.

Bryndís fór af leikvelli þegar rúmar 60 mínútur voru liðnar af leiknum, skömmu eftir að hún skoraði jöfnunarmark Vals. Bryndís gæti misst af næstu leikjum Vals en hún er markahæsti leikmaður Bestu-deildarinnar með sjö mörk eftir níu leiki.

„Hún var spörkuð niður inn í teig og er stórslösuð. Staðan á henni er mjög slæm og ég skil ekki alveg af hverju það var ekkert dæmt, hún var meira að segja spörkuð niður eftir það var búið að flauta. Ég átta mig ekki alveg á því en hún var bara spörkuð út úr leiknum,“ sagði Pétur, þungur á brún, í viðtali við Vísi eftir leik.

Bryndís fór niður inn í vítateig Keflavíkur eftir að Madison Wolfbauer sparkaði í Bryndísi þegar Madison ætlaði að hreinsa boltann í burtu, eftir að Bríet dómari var búin að flauta vegna höfuðmeiðsla Þórdísar Elvu, sem lá þá í grasinu.

Valskonur lentu 1-0 undir í fyrri hálfleik en heimakonur voru verðskuldað yfir eftir flottan fyrri hálfleik hjá liðinu. Pétur var þó ánægður með það hvernig leikmenn Vals svöruðu í síðari hálfleik.

„Fyrri hálfleikur var ekki góður en mer fannst við ekki koma vel inn í byrjun leiks. Seinni hálfleikur var hins vegar góður og við áttum þá að klára þennan leik.“

Í hálfleik minnti Pétur sína leikmenn á hvað uppleggið var fyrir leik.

„Fyrst og fremst þá fórum við að gera hlutina eins og við vildum gera þá í fyrri hálfleik. Við gerðum ákveðna hluti ekki vel í fyrri hálfleik sem við ætluðum að gera og breyttum áherslu í seinni hálfleik og boltinn gekk þá mun betur á milli leikmanna,“ svaraði hann, aðspurður út í hvað liðið fór yfir í hálfleik.

Framundan hjá Val er stórleikur gegn Breiðablik næstkomandi sunnudag. Pétur vil byggja ofan á góða frammistöðu í síðari hálfleiknum í kvöld fyrir leikinn gegn Breiðablik.

„Það verður náttúrulega öðruvísi leikur frá grasi og yfir á gervigras en við tökum allt gott úr seinni hálfleikinn með okkur inn í þann leik,“ sagði Pétur Pétursson, þjálfari Vals, að endingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×