Samkvæmt jarðgangaáætlun sem innviðaráðherra kynnti samhliða samgönguáætlun í byrjun júnímánaðar eru Fjarðarheiðagöng efst á forgangslista þeirra tíu jarðganga sem hann vill ráðast í.
Töluverð umræða hefur verið um Fjarðarheiði og gangamál en sveitarstjóri Múlaþings segir algjöra samstöðu ríkja á Austurlandi um að ráðast í gangagerð.
„En það sem við leggjum líka gífurlega áherslu á er að við náum þessari hringtengingu á Austurlandi, þannig þegar framkvæmdum við Fjarðarheiðagöng er lokið að þá verði farið beint í göng milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar og Mjóafjarðar og Norðfjarðar,“ segir Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings.
Það sé nauðsynlegt svo hægt sé að líta á svæðið sem eitt sameiginlegt atvinnusvæði og til að tryggja öryggi íbúa.
„Þannig það er það sem við munum berjast fyrir áfram. En sem betur fer eru göngin frá Seyðisfirði til Mjóafjarðar og frá Mjóafirði til Norðfjarðar inni í þessari áætlun en það svo sem liggur ekki fyrir hvort það sé í beinu framhaldi af Fjarðarheiðagöngum sem er mikilvægt og það er það sem við munum leggja áherslu á.“
Hann segir áherslur á Íslandi ekki hafa verið mjög ákveðnar í gangagerð. Um sé að ræða hagkvæmnustu samgöngubætur sem völ sé á, þó þær kosti.
Ráðherra segir reiknað með gjaldtöku í öllum göngum samhliða væntanlegum breytingum á gjöldum á umferðina. Björn segir íbúa alltaf hafa gert ráð fyrir gjaldtöku.
„Okkur finnst það ósköp eðlilegt því við sjáum að þó við greiðum fyrir að fara í gegnum göngin þá er þetta miklu styttri leið fyrir okkur og ódýrari rekstrarlega fyrir bílinn heldur en að fara yfir fjallið. Og svo eigum við bara að hafa Færeyingana að leiðarljósi og fara alltaf í framhaldi af einum göngum í næstu göng. Aldrei stoppa.“