Þar segir að viðbragðsaðilar úr liði lögreglu og sjúkraflutningamanna séu nú á staðnum. Skemmtigarðurinn hefur verið rýmdur á meðan viðbragðsaðilar athafna sig.
Óljóst er á þessari stundu hvers vegna rússíbaninn fór út af sporinu og óvíst er að svo stöddu hversu margir eru slasaðir. Þá er ekki ljóst á þessari stundu hve alvarleg meiðsl þeirra eru.
Aftonbladet hefur eftir Anniku Troselius, talsmanni skemmtigarðsins, að garðurinn muni vinna með sænskum yfirvöldum að fullu. Nú sé allt gert til þess að huga að hinum slösuðu.
Þá hefur miðillinn eftir Mou Hummelgard, yfirmanni björgunarsveita á staðnum, að enn sé unnið að því að koma gestum úr rússibananum sem sitji fastir í vögnum hans.
Blaðið ræðir auk þess við vitni sem telur að hjól hafi dottið af rússíbananum. Vitnin lýsa miklum hvellum sem minnt hafi á byssuskot.
Um er að ræða rússíbanann Jetline en hann fer mest á 90 kílómetra hraða. Þá er hann hæstur í þrjátíu metra lofthæð. Rúmlega milljón gestir á hverju ári prófa rússíbanann, samkvæmt vef skemmtigarðsins.
