Körfubolti

Wembanyama hefur ekki tíma fyrir HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Victor Wembanyama ætlar að einbeita sér að því að undirbúa sig vel fyrir fyrsta tímabilið með San Antonio Spurs.
Victor Wembanyama ætlar að einbeita sér að því að undirbúa sig vel fyrir fyrsta tímabilið með San Antonio Spurs. AP/Darren Abate

Victor Wembanyama verður ekki með Frökkum á heimsmeistaramótinu í sumar. Hann ætlar að eyða kröftum og tíma sínum að undirbúa sig sem best fyrir fyrsta tímabilið í NBA deildinni.

Wembanyama var valinn fyrstur í nýliðavalinu á dögunum og þykir mesta efni sem hefur komið inn í deildina síðan að LeBron James var valinn.

Frakkar unnu silfur á síðustu Ólympíuleikum og voru líklegir til afreka á HM í sumar ekki síst með Wembanyama innan borðs.

Wembanyama mun spila með San Antonio Spurs í Sumardeildinni og einbeita sér að byggja sig upp fyrir átökin í NBA.

„Það var ekki raunhæft að vera með vegna undirbúningsins fyrir tímabilið og það er heldur ekki skynsamlegt þegar kemur að heilsu minni,“ sagði Victor Wembanyama í viðtali við franska blaðið L'Equipe.

„Ég vona að fólk skilji þetta. Þetta er líka pirrandi fyrir mig. Franska landsliðið er mér mikilvægt. Ég vil vinna eins marga titla og mögulegt er með liðinu. Ég held bara að þetta sé nauðsynleg fórn,“ sagði Wembanyama.

Victor Wembanyama sagðist hafa tekið þessa ákvörðun einn eftir að hafa ráðfært sig við lækna sína en að San Antonio Spurs hafi ekki sett neina pressu á hann.

Wembanyama spilaði 62 leiki með Boulogne-Levallois Metropolitans 92 á nýloknu tímabili en liðið fór alla leið í lokaúrslitin. Ef hann hefði verið með á HM þá hefði hann mögulega spilað um 170 leiki á 24 mánuðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×