Fótbolti

Englandsmeistararnir ætla ekki að keppa við nýtt tilboð Arsenal í Rice

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Fátt virðist geta komið í veg fyrir að Declan Rice gangi til liðs við Arsenal.
Fátt virðist geta komið í veg fyrir að Declan Rice gangi til liðs við Arsenal. Robin Jones/Getty Images

Englandsmeistarar Manchester City virðast vera búnir að draga sig úr kapphlaupinu um Declan Rice, miðjumann West Ham og enska landsliðsins.

Manchester City blandaði sér í kapphlaupið um að kaupa Rice af West Ham á dögunum þegar fregnir bárust af því að félagið hafi boðið allt að níutíu milljónir punda í leikmanninn.

Rice hefur lengi verið orðaður við Arsenal, en stuðningsmönnum liðsins brá heldur betur í brún þegar fréttist að Englandsmeistararnir væru að gera sig líklega til að ræna leikmanninum af þeim.

Forráðamenn Arsenal brugðust því við þeim fregnum með því að bjóða yfir hundrað milljónir punda, yfir sautján milljarða íslenskra króna, í leikmanninn. Það myndi gera hann að dýrasta leikmanni ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi.

Þetta nýja tilboð Arsenal virðist hafa virkað að einhverju leyti því nú berast fregnir af því að Manchester City ætli hvorki að bjóða betur eða jafna boðið. Engladsmeistararnir hafa dregið sig úr kapphlaupinu og nú bíður Arsenal eftir svari frá forráðamönnum West Ham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×