Viðskipti innlent

Ís­lands­banka­salan eitt far­sælasta út­boðið í Evrópu

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins og Lárus Blöndal, stjórnarformaður sátu fyrir svörum þingmanna á nefndarfundi.
Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins og Lárus Blöndal, stjórnarformaður sátu fyrir svörum þingmanna á nefndarfundi. Vísir/Vilhelm

Stjórnar­menn Banka­sýslu ríkisins segja það hafa verið mikil von­brigði að ekki hafi verið farið að lögum við sölu á hlut ríkisins í Ís­lands­banka. Þeir standa við orð sín um að hluta­fjár­út­boðið hafi verið það far­sælasta í Ís­lands­sögunni og segja það eitt af far­sælli út­boðum Evrópu.

Þetta er meðal þess sem fram kom á opnum fundi í efna­hags-og við­­skipta­­nefnd fyrir skemmstu. Þar sátu þeir Jón Gunnar Jóns­son, for­stjóri Banka­sýslu ríkisins og Lárus Blön­dal, stjórnar­for­maður fyrir svörum þing­manna vegna brota Ís­lands­banka við sölu­með­ferð eignar­hluta ríkisins í bankanum.

Ekki við Bankasýsluna að sakast

„Það liggur fyrir sátt þar sem öllu þessu er lýst og það er ekki gerð nein at­huga­semd við okkar að­komu að ferlinu. Vanda­málið er að sá sem sá um þessa fram­kvæmd fylgdi ekki reglunum. Þær voru til staðar og nú hefur Fjár­mála­eftir­litið komist að því að brot hafi verið framin, þannig að kerfið virkar,“ sagði Lárus Blön­dal þegar hann var spurður að því hvernig brot við fram­kvæmd sölunnar hefðu farið fram hjá Banka­sýslunni.

Þá sögðu þeir sýsluna ekkert hafa getað að­hafst þar sem hún hefði ekkert for­ræði yfir starfs­mönnum bankans eða dag­legum störfum hans.

„Það er ekkert við okkur að sakast. Það er bara bankinn. Það liggur fyrir. Niður­staða eftir­litsins er sú að bankinn stóð ekki undir þeim kröfum sem til hans voru gerðar.“

Lárus og Jón segjast hafa upp­lifað sitt sam­starf með for­svars­mönnum bankans sem gott sam­starf. Þeim hafi ekki verið ljóst að Ís­lands­banki hefði ekki farið eftir settum reglum fyrr en þeir hefðu lesið um það í skýrslu Fjár­mála­eftir­litsins.

„Við lesum það bara í skýrslunni að Ís­lands­banki hafi haft upp­lýsingar um að til­teknir ein­staklingar hafi ekki upp­fyllt skil­yrði sem fag­fjár­festar en ekki látið okkur vita. Þetta vitum við bara úr skýrslunni. Við höfum upp­lifað allt okkar sam­starf með bankanum sem gott sam­starf.“

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar, stýrði fundinum. Vísir/Vilhelm

Ekki heppi­legt að skipta um stjórn

Þá voru for­svars­menn Banka­sýslunnar spurðir að því af Óla Birni Kára­syni, þing­manni Sjálf­stæðis­flokksins, hvort að til greina kæmi að óskað yrði eftir því á hlut­hafa­fundi bankans í júlí að stjórn bankans myndi endur­nýja um­boð sitt. Svaraði Lárus því að það væri viða­mikil að­gerð að fram­kvæma stjórnar­kjör á þessum tíma­punkti en það væri til skoðunar.

Það kunni þó að vera að það sé heppi­legt að stjórnin endur­nýji um­boð sótt en Banka­sýslan þurfi einnig að verja bankann og stöðug­leika. „Það er ekki heppi­legt að skipta út heilli stjórn í banka. Það tekur tíma að komast inn í málin og vera virkur stjórnar­maður. Þannig að við erum líka að tryggja hags­muni bankans og hlut­hafa hans.“

Telur út­boðið enn hafa verið far­sælt

Þá spurði Guð­brandur Einars­son, þing­maður Við­reisnar, Jón Gunnar að því hvort hann væri enn á því að út­boðið væri best heppnaða hluta­fjár­út­boð Ís­lands­sögunnar líkt og hann full­yrti á nefndar­fundi að út­boði loknu. Jón Gunnar sagðist enn á þeirri skoðun.

„Ég sagði hér fyrir framan nefnd að þetta væri far­sælasta hluta­fjár­út­boð Ís­lands­sögunnar. Ég stend við það og held að síðari skoðun renni enn frekari stoðum undir það. Þetta tók stuttan tíma og var þriðja stærsta út­boð Ís­lands­sögunnar. Það var tæpur mánuður frá inn­rás Úkraínu og erfiðar markaðs­að­stæður, við nýttum okkar glugga og er­lendir miðlar sögðu okkur hafa opnað hluta­bréfa­markaðinn. Þetta var ekki bara far­sælasta hluta­fjár­út­boð Ís­lands­sögunnar, heldur eitt það far­sælasta sem átti sér stað í Evrópu.“

Nefndi Jón því næst hagnað annarra Evrópu­ríkja líkt og Ír­lands og Bret­lands eftir sölu þeirra á nokkrum eignar­hlutum í bönkum þar sem sömu út­boðs­að­ferð var beitt og við sölu á hlut ríkisins í Ís­landbanka. Ís­lenska ríkið hefði fengið ívið meira í sinn hlut við söluna en írska og breska ríkið.

„Þannig að öll gögn styðja þá full­yrðingu mína að þetta var ekki bara far­sælasta hluta­fjár­út­boð Ís­lands­sögunnar heldur eitt far­sælasta út­boð sem átti sér stað í Evrópu.“

Arn­dís Anna Kristínar­dóttir Gunnars­dóttir, þing­maður Pírata, spurði þá Jón hvort að virðið sem fengist hafi fyrir hlutinn væri eini mæli­kvarðinn á far­sæla sölu. Svaraði Jón því að það væri for­gangs­hlut­verk Banka­sýslunnar lögum samkvæmt. 

Hildur Sverrisdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir þingkona Framsóknar og Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir þingkona Pírata. Vísir/Vilhelm





Fleiri fréttir

Sjá meira


×