Handbolti

Íslensku strákarnir spila um verðlaun á HM

Óskar Ófeigur Jónsson og Sindri Sverrisson skrifa
Þorsteinn Leó Gunnarsson átti magnaðan leik í dag og skoraði ellefu mörk. Hann var skiljanlega valinn maður leiksins.
Þorsteinn Leó Gunnarsson átti magnaðan leik í dag og skoraði ellefu mörk. Hann var skiljanlega valinn maður leiksins. IHF

Ísland leikur um verðlaun á HM U21-landsliða karla í handbolta, eftir að hafa slegið út Portúgal í 8-liða úrslitum í Berlín í dag með 32-28 sigri. Í undanúrslitunum mæta strákarnir sigurliðinu úr leik Ungverjalands og Króatíu sem fram fer síðar í dag.

Undanúrslitin fara fram á laugardaginn og sama hvernig fer þar þá mun Ísland leika um verðlaun á sunnudaginn, við Serbíu (sem sló Færeyjar út í dag), Þýskaland eða Danmörku.

Þorsteinn Leó Gunnarsson átti sannkallaðan stórleik fyrir Ísland í dag, sérstaklega í seinni hálfleik, og endaði með ellefu mörk.

Árangur Íslands er sá besti sem U21-landsliðið hefur náð á HM síðan það vann bronsverðlaun fyrir þrjátíu árum. Styttra er þó síðan að íslenskt landslið vann verðlaun á heimsmeistaramóti en það gerði U19-landslið karla á HM 2015, þegar liðið vann brons, og á HM 2009 þegar liðið vann silfur.

Magnaður Þorsteinn þegar Ísland komst yfir

Portúgal skoraði fyrstu tvö mörk leiksins í dag og hafði frumkvæðið í fyrri hálfleik, og var Ísland tveimur mörkum undir að honum loknum, 14-12.

Snemma í seinni hálfleik náðu íslensku strákarnir hins vegar frábærum kafla og skoruðu fjögur mörk í röð, og komust þannig yfir í fyrsta sinn í leiknum, 19-18, þegar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum.

Portúgalar tóku þá leikhlé en gekk erfiðlega að breyta gangi mála og þeir áttu sérstaklega erfitt með að halda aftur af skyttunni hávöxnu og sterku, Þorsteini Leó. Hann skoraði fimm mörk á fyrsta korterinu í seinni hálfleik og kom Íslandi í 22-20 með sínu níunda marki í leiknum.

Þorsteinn lenti reyndar illa eftir níunda markið og fór af velli en sneri fljótlega aftur, og kom Íslandi í 26-24 með sínu tíunda marki þegar rúmar sjö mínútur voru eftir.

Rekinn af velli fyrir brot á Þorsteini

Portúgalar reyndu að stöðva Þorstein en Nilton Melo gekk of langt og fékk rautt spjald eftir að hafa farið í andlit Þorsteins í miðju skoti.

Spennan hélt þó áfram í leiknum en Ísland var 1-2 mörkum yfir þar til að Einar Bragi Aðalsteinsson brunaði fram og skoraði úr hraðaupphlaupi, og jók muninn í 30-27, rétt eftir laglegt mark Símonar Michaels Guðjónssonar úr hægra horninu.

Portúgal tókst ekki að hleypa spennu í leikin í lokin, enda kviknaði svo um munaði á Brynjari Vigni Sigurjónssyni í markinu, og Ísland vann fjögurra marka sigur, 32-28.

Þorsteinn var eins og fyrr segir markahæstur með ellefu mörk. Andri Már Rúnarsson skoraði 5 mörk, Benedikt Gunnar Óskasson og Símon Michael Guðjónsson 4 hvor, Arnór Viðarsson, Jóhannes Berg Andrason og Tryggvi Þórisson 2 hver, og Stefán Orri Arnalds og Einar Bragi Aðalsteinsson 1 mark hvor.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×