Handbolti

Bronslið Ís­lands í „lífs­hættu“ í Egypta­landi: „Var svo­­lítill hiti í þessu“

Aron Guðmundsson skrifar
Aron Kristjánsson var hluti af u21 árs landsliði Íslands sem vann til bronsverðlauna á HM 1993 í Egyptalandi
Aron Kristjánsson var hluti af u21 árs landsliði Íslands sem vann til bronsverðlauna á HM 1993 í Egyptalandi Vísir/Samsett mynd

Aron Kristjáns­son, fyrrum at­vinnu- og lands­liðs­maður í hand­bolta var hluti af undir 21 árs liði Ís­lands sem vann til brons­verð­launa á HM í Egypta­landi fyrir þrjá­tíu árum síðan. Liðið, varð um leið það fyrsta í Ís­lands­sögunni til þess að vinna til verð­launa í liða­keppni á heims­meistara­móti.

Nú­verandi undir 21 árs lands­lið Ís­lands stendur nú í sporum sem Aron, og fleiri goð­sagnir í ís­lenskum hand­bolta stóðu í áður. Fram undan er leikur í undan­úr­slitum HM gegn Ung­verjum síðar í dag og svo annað hvort leikur um brons- eða gull­verð­laun á sunnu­daginn kemur.

Í við­tali við Stöð 2 og Vísi fór Aron yfir HM í Egypta­landi árið 1993, lið Ís­lands á þeim tíma sem og nú­verandi undir 21 árs lands­lið Ís­lands.

Mikið lagt í liðið

„Við vorum með mjög gott lið og sumarið 1993 var mjög skemmti­legt fyrir okkur. Það var lagt mikið í þetta undir 21 árs lands­lið þá vegna þess að þetta var mjög efni­legt lið. Sumarið var eins og ég segi mjög skemmti­legt. Við fórum út í æfinga­búðir fyrir HM, spiluðum einnig á meistara­móti Norður­landanna og urðum þar Norður­landa­meistarar.“

Heims­meistara­mótið þetta árið var haldið í Egypta­landi og var um að ræða mikla lífs­reynslu fyrir leik­menn undir 21 árs lands­liðsins að halda út á það mót.

Liðið var, auk Arons, skipað nú þekktum leik­mönnum á borð við Ólaf Stefáns­son, Sig­fús Sigurðs­son, Er­ling Richards­son, Dag Sigurðs­son og Pat­rek Jóhannes­son og þá var þjálfari liðsins Þor­bergur Aðal­steins­son.

„Þarna spiluðum við mjög gott heims­meistara­mót og enduðum í þriðja sæti, svekk­elsið var hins vegar til staðar yfir því að við skyldum ekki vinna mótið,“ segir Aron.

Undir 21 árs landslið Íslands sem vann bronsverðlaun á HM 1993

Og er það vel skiljan­legt. Ís­lenska lands­liðið á þessum tíma spilaði mjög gott mót í Egypta­landi og vann alla leiki nema einn í sínum riðli. Tapið kom nokkuð ó­vænt á móti Rúmeníu eftir sigur­leiki gegn Grikkjum sem og heima­mönnum frá Egypta­landi og er sigurinn á móti Egyptum eftir­minni­legur í huga Arons.

Leikmenn í „lífshættu“ grýttir af áhorfendum í leikslok 

Leikurinn var spilaður fyrir framan tuttugu þúsund stuðnings­menn Egypta og segir Aron það hafa verið stór­kost­lega reynslu fyrir unga lands­liðs­menn Ís­lands á þessum tíma.

„Þetta var mikil reynsla fyrir okkur og það herðir menn að­eins að spila í svona um­hverfi,“ segir Aron en leik­menn Ís­lands fengu þó að finna fyrir reiði Egypta í leiks­lok eftir að hafa borið sigur úr býtum.

Í Dagblaðinu Vísi þann 14. september árið 1993 er skrifað: 

„Íslenska liðið hefur lent í ýmsu á mótinu. Á dögunum voru leikmenn og aðstandendur liðsins í lífshættu eftir sigurleik á heimamönnum, Egyptum. Þá var vatnsbrúsum fleygt í átt að leikmönnum íslenska liðsins undir lok leiksins og það þurfti að fá lögreglufylgd á hótelið að leik loknum til að komast undan æstum skrílnum.“

„Þarna voru um tuttugu þúsund á­horf­endur á móti okkur og í lok leiks vorum við grýttir með vatns­flöskum og þurftum í kjöl­farið að bíða inn í búnings­klefanum í tæpar tvær klukku­stundir á meðan að á­horf­endur voru að koma sér frá höllinni.

Þá voru þeir leik­menn, sem sátu fyrir utan hóp hjá okkur í leiknum, bara í hættu þar sem að þeir sátu upp í stúku og horfðu á. Rússarnir, sem sátu þá hjá og horfðu á leikinn úr stúkunni, á­samt okkar mönnum, klæddu þá í jakka og der­húfur af sér til þess að koma þeim undan skrílnum.

Þá man ég einnig að Dagur Sigurðs­son fékk að líta rauða spjaldið í leiknum og var hann í kjöl­farið sendur upp í stúku. Hann rétt slapp til baka inn á völlinn. Það var svo­lítill hiti í þessu.“

Reglurnar okkur óhagstæðar

Ís­lenska lands­liðinu gekk vel í milli­riðlum, vann alla sína leiki en þrátt fyrir að hafa jafn mörg stig og Egypta­land, auk þess sem liðið hafði unnið sinn leik gegn Egyptum, endaði Ís­land í 2. sæti milli­riðilsins sem gaf sæti í brons­leiknum.

Egyptar hirtu topp­sætið í milli­riðlinum og mættu Dönum sem endaði einnig í topp­sæti hins milli­riðilsins.

„Reglurnar voru að­eins öðru­vísi á þessum tíma. Það var ekkert kross­spil og heildar marka­tala gilti ef lið voru jöfn að stigum í riðlinum, ekki inn­byrðis viður­eignir. Við enduðum því í öðru sæti þrátt fyrir að hafa unnið Egyptana og spiluðum því við Rúss­land um bronsið en þeir enduðu í 2. sæti hins milli­riðilsins.“

Heim­fært á reglurnar sem eru í gildi í dag hefði staða ís­lenska liðsins orðið til þess að það hefði spilað í undan­úr­slitum gegn Dönum og Egyptar hefðu mætt Rússum.

„Við höfðum, fyrir HM, unnið Dani nokkuð örugg­lega á meistara­móti Norður­landanna. Þriðja sætið var niður­staðan hjá okkur á HM þetta árið eftir sigur á Rússum en við unnum bæði liðin sem enduðu fyrir ofan okkur.“

Aron reyndist hetjan í brons­leiknum gegn Rússum þegar að hann skoraði flautu­mark í eins marks sigri.

Eitt af toppliðum heimsins

Hann segir ís­lenska liðið hafa tekið með sér mikla og góða reynslu frá mótinu. Það sama muni gilda um nú­verandi lands­lið.

„Þetta eykur þessa al­þjóð­legu reynslu og gerði okkur með­vitaða um að við værum eitt af topp­liðunum í heiminum. Nú­verandi leik­menn lands­liðsins geta nú verið með­vitaðir um að þeir eru eitt af topp lands­liðum í heimi núna. 

Þegar að þeir svo eiga að taka við í A-lands­liðinu, þá eigum við að vera með lið sem stendur mjög framar­lega. Um­boðs­menn, fé­lög og svo fram­vegis eru að fylgjast með, þetta er því góður gluggi fyrir þessa leik­menn til þess að komast í at­vinnu­mennsku.“‘

Leikmenn íslenska landsliðsins fagna sæti í undanúrslitum eftir sigur á Portúgal Mynd: IHF

Hann hefur hrifist af spila­mennsku Ís­lands á mótinu.

„Þeir hafa verið mjög vaxandi í spila­mennsku sinni og hafa spilað vel í þessum erfiðu leikjum á móti góðum and­stæðingum. Þetta byrjaði erfið­lega í fyrsta leik en svo hafa þeir skilað sterkum frammi­stöðum. Ég hef trú á því að það sé góð helgi fram undan.“

Þjóðin gladdist

Geturðu borið saman ein­hver ein­kenni þessa liðs við það sem vann til verð­launa fyrir 30 árum síðan?

„Hand­boltinn hefur auð­vitað breyst mikið undan­farna ára­tugi, hraðinn er orðinn meiri núna en við vorum með marga öfluga leik­menn á sínum tíma og það ein­kennir þetta nú­verandi lands­lið líka. Mér finnst breiddin í þessu liði góð, margir leik­menn eru í góðum hlut­verkum í liðum í efstu deild hér heima og það var líka raunin hjá okkur á sínum tíma.“

Leik­menn hafi áttað sig á því á sínum tíma að þeir væru að standa sig vel sem lið í hóp­í­þrótt.

„Og það er alltaf gaman að ná svona árangri. 21 árs lands­liðið er náttúru­lega skrefinu neðar en A-lands­liðið en samt sem áður fann maður fyrir því á þessum tíma hversu gott þetta var, fyrir okkur sem þjóð, að vinna til verð­launa á heims­meistara­móti. Þá er frá­bært að sjá að þetta lið sé að brjóta þennan ís aftur, að leika til verð­launa á heims­meistara­móti.

Eru með lið til að klára dæmið

Ef þú gætir gefið lands­liðinu eitt ráð fyrir komandi stór­leiki hvaða ráð væri það?

„Bara að fara í þessa leiki til þess að vinna þetta og hafa trú á því. Þeir eru með liðið í það. Nú er bara að undir­búa sig vel og klára þetta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×