Sigvaldi er mættur til Berlínar til að fylgjast með bróður sínum, Símoni Michael, og félögum hans í U-21 árs landsliði Íslands á úrslitahelgi HM. Ísland mætir Ungverjalandi í undanúrslitum klukkan 13:30 í dag.
„Það er ótrúlega gaman að horfa á hann og algjör snilld að fylgjast með þessu liði. Það er þvílíkur karakter í því. Ég er búinn að horfa á alla leikina og stemmningin í hópnum hefur stigmagnast,“ sagði Sigvaldi í samtali við Vísi á samkomu íslenskra stuðningsmanna fyrir leikinn í dag.
Hann er nokkuð ánægður með frammistöðu síns manns á mótinu.
„Ég er frekar sáttur með hann. Hann hefur spilað mikið og nýtingin hefur verið ágæt en mætti vera aðeins betri. En ég er stoltur að hann sé þarna og liðið komið í undanúrslit,“ sagði Sigvaldi.
Hann metur möguleikana gegn Ungverjum fína. Líkt og Ísland hefur Ungverjaland unnið alla sex leiki sína á HM.
„Þetta verður hörkuleikur. Þetta er svipað lið og þeir eru með í A-landsliðinu; stórir og miklir. Vonandi hlaupum við og fáum markvörslu. En þetta er bara 50-50 leikur og snýst um hver hittir á daginn sinn og fær betri markvörslu,“ sagði Sigvaldi að lokum.