Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði í Vikulokunum á Rás 1 í morgun að engin ástæða væri til að bíða með að opinbera samninginn og hann hygðist beita sér fyrir því innan fjárlaganefndar þar sem hann situr.
„Leggjum öll spilin á borðið og byggjum upp traust, því að ef við gerum það ekki þá getum við ekki haldið áfram með þetta mikilvæga ferli að losa um eignarhlut ríkisins í þessum fjármálafyrirtækjum,“ sagði hann í Vikulokunum.
Tók undir með kollega sínum
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður í fjárlaganefnd, tók undir með Þórarni í viðtali við Rúv í kvöld. Hún segir nauðsynlegt að birta allt í kringum söluna og sér enga ástæðu til að bíða eftir uppgjöri bankans.

„Þarna er verið að selja ríkiseignir og því miður þá var framkvæmdin ekki eins og við, sem studdum söluna, hefðum viljað óska og það er bara mjög eðlilegt að allar upplýsingar í tengslum við þetta mál verði birtar og sem fyrst,“ sagði hún við Rúv.
Það skipti máli fyrir íslenskan almenning, gagnsæi og upplýsingagjöf um málið. Bryndís segir þó að ekki eigi að þurfa að kalla fjárlaganefnd saman til að samningurinn verði birtur, en hún mæti á þann fund verði boðaðu til hans.
„Við höfum lært ýmislegt, en ég hefði svo sannarlega viljað að þessi menning væri horfin úr íslenska fjármálakerfinu,“ sagði hún um það hvort Íslendingar hefðu lært af reynslunni frá fjármálahruninu.
Formaðurinn krefst birtingar strax
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður fjárlaganefndar og þingmaður Vinstri grænna, bættist í hóp þeirra sem krefjast birtingar starfslokasamningsins rétt fyrir sjö. Hún segir að það eigi að birta hann strax.
„Ég mun óska eftir því fyrir hönd fjárlaganefndar að fá afhentan starfslokasamning fyrrum bankastjóra Íslandsbanka. Það er algjörlega ótækt að þurfa að bíða eftir einhverskonar uppgjöri bankans og auðvitað á að birta hann strax,“ skrifaði hún í færslu á Facebook-síðu sinni.
Þrýstingurinn á stjórn Íslandsbanka um að birta starfslokasamning Birnu eykst áfram en það er spurning hvort hún láti undan fyrir ársuppgjör. Þá er spurning hvort fjárlaganefnd óski einnig eftir starfslokasamningi Ásmundur Tryggvasonar sem steig í kvöld til hliðar sem framkvæmdastjóri á sviði fyrirtækja og fjárfesta hjá Íslandsbanka.