Fótbolti

Segir Chelsea hafa verið besta lið Englands undanfarin ár

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mauricio Pochettino er nýráðinn knattspyrnustjóri Chelsea.
Mauricio Pochettino er nýráðinn knattspyrnustjóri Chelsea. Matt McNulty/Getty Images

Mauricio Pochettino, nýráðinn knattspyrnustjóri Chelsea, segir að Lundúnaliðið hafi verið besta lið Englands undanfarin tíu til fimmtán ár.

Pochettino mætti í sitt fyrsta viðtal sem knattspyrnustjóri Chelsea í dag og sparaði heldur betur ekki stóru orðin. Frá árinu 2004 hefur Chelsea unnið 21 titil, þar á meðal ensku úrvalsdeildina fimm sinnum og Meistaradeild Evrópu tvisvar, en félagið losaði sig við tvo stjóra á síðasta tímabili og endaði að lokum í 12. sæti deildarinnar.

„Síðustu tíu, tólf, fimmtán ár hefur Chelsea verið besta lið Englands,“ sagði Pochettino í viðtalinu.

„Ég þekki ensku úrvalsdeildina mjög vel og hvað það er sem Chelsea stendur fyrir. Ég held að stuðningsmennirnir séu spenntir að reyna að koma sigurgöngunni af stað á ný.“

Þessi 51 árs gamli knattspyrnustjóri er vissulega kunnugur ensku úrvalsdeildinni, en hann þjálfaði bæði Southampton og Tottenham, nágrannalið Chelsea, á sínum tíma með góðum árangri. Hann segir að það hafi verið auðveld ákvörðun að taka við starfinu

„Það er heiður að vera hluti af Chelsea. Við erum mjög spenntir og ég þekki Chelsea vel. Þetta er einn besti klúbbur í heimi. Þannig að auðvitað var það auðveld ákvörðun að koma hingað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×