Fótbolti

Van der Sar á­fram á gjör­gæslu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Van der Sar er enn á gjörgæslu á sjúkrahúsi í Króatíu.
Van der Sar er enn á gjörgæslu á sjúkrahúsi í Króatíu. Vísir/Getty

Knattspyrnugoðsögnin Edwin Van der Sar er áfram á gjörgæslu eftir að hafa verið lagður inn vegna heilablæðingar í gær. 

Hinn 53 ára gamli Van der Sar var í fríi með fjölskyldu sinni í Króatíu þegar hann veiktist skyndilega í gær, föstudag, og fara þurfti með hann á spítala hið snarasta.

Var farið með hann í þyrlu á næstu gjörgæslu. Í yfirlýsingu frá hollenska félaginu Ajax, sem birtist núna í morgun, segir að Van der Sar sé enn á gjörgæslu. Ástand hans sé stöðugt en veldur þó áhyggjum.

Ajax gaf út yfirlýsingu á Twitter fyrir hönd Annemarie Van der Sar, eiginkonu Edwin. Þar kemur einnig fram að fjölskyldan og Ajax, þakki fyrir fjölmörg skilaboð sem borist hafa honum til stuðnings.

Edwin Van der Sar var framkvæmdastjóri Ajax til fjölda ára allt þar til hann sagði starfi sínu lausu fyrir ekki svo löngu síðan. Hann hefur unnið Meistaradeild Evrópu bæði með Manchester United og Ajax og er af mörgum talinn einn af bestu markvörðum allra tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×