Frá þessu greinir BBC og segir Lyfjastofnun Íslands hafa sett sig í samband við Lyfjastofnun Evrópu vegna þriggja atvika hér á landi.
Málin eru sögð varða tvo einstaklinga sem þjáðust af sjálfsvígshugsunum en annar var á þyngdarstjórnunarlyfinu Ozempic og hinn á Saxenda. Þá varðar eitt tilvik einstakling sem þjáðist af sjálfsskaðahugsunum á meðan hann var á Saxenda.
Athugun eftirlitsnefndarinnar mun meðal annars ná til Ozempic, Saxenda og Wegovy, sem eiga það sameiginlegt að draga úr matarlyst. Sjálfsvígshugsanir eru taldar upp meðal mögulegra aukaverkana lyfjanna.
Fyrst um sinn mun athugunin aðeins ná til lyfja sem innihalda semaglutide og liraglutide en síðar verða einnig rannsökuð lyf sem hafa svipaða virkni, það er líkja eftir hormóninu GLP-1.
Umrædd lyf hafa notið gríðarlegra vinsælda síðustu misseri, sem hefur leitt til skorts á lyfjunum.