Enski boltinn

Á leið í bann eftir brot á veð­mála reglum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Stefnir allt í að Toffolo sé á leið í langt bann.
Stefnir allt í að Toffolo sé á leið í langt bann. Richard Sellers/Getty Images

Það stefnir allt í að Harry Toffolo, varnarmaður Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, feti í fótspor Ivan Toney og verði dæmdur í margra mánaða bann vegna brota á veðmála reglum enska knattspyrnusambandsins.

Hinn 27 ára gamli Toffolo var einn fjölmargra leikmanna sem Forest sótti eftir að liðið tryggði sér sæti í ensku úrvalsdeildinni. Alls tók hann þátt í 21 leik á síðustu leiktíð, þar af 19 í ensku úrvalsdeildinni.

Hann hefur nú verið kærður fyrir 375 brot á veðmála reglum enska sambandsins frá 22. janúar 2014 til 18 mars 2017. Hann var þá leikmaður Norwich City en var lánaður til Swindon Town, Rotherham, Peterborough og Scunthorpe United á tímanum sem um er ræðir.

Ekki hefur komið fram hvort Toffolo hafi veðjað á leiki sem hann sjálfur spilaði. Toney, framherji Brentford, var dæmdur í átta mánaða bann vegna 232 brota á veðmála reglum sambandsins. 

Framherjinn var leikmaður Newcastle United á meðan brotin voru framin en var á láni hjá Shrewsbury Town, Scunthorpe United og Wigan Athletic. Toney veðjaði aldrei á leiki sem hann spilaði sjálfur.

Tveir leikmenn  á Íslandi hefur verið dæmdur í samskonar bann og Toney. Sigurður Gísli Snorrason lék með Aftureldingu og var dæmdur í bann út árið 2023. Steinþór Freyr Þorsteinsson lék með KA og var einnig dæmdur í bann út árið. Báðir veðjuðu á leiki sem þeir spiluðu.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×