Erlent

Stefnir í verk­fall Hollywood leikara

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Meryl Streep er meðal stórleikara sem hafa sagt að þau styðji verkfallsaðgerðir.
Meryl Streep er meðal stórleikara sem hafa sagt að þau styðji verkfallsaðgerðir. EPA-EFE/ETTORE FERRARI

Verka­lýðs­fé­lag Hollywood leikara hefur lagt til að gripið verði til verk­falls­að­gerða eftir að samnings­frestur rann út á mið­nætti. Ef af verður, verður það í fyrsta sinn sem leikarar og hand­rits­höfundar í Hollywood verða í verk­falli á sama tíma í sex­tíu ár.

Í um­fjöllun Guar­dian um málið kemur fram að samninga­nefnd verka­lýðs­fé­lags leikara í sjón­varpi og út­varpi, sem í eru 160 þúsund leikarar, hafi lagt til að gripið verði til verk­falls­að­gerða. Stjórn fé­lagsins mun svo taka á­kvörðun um það síðar í dag og eru allar líkur á að það verði sam­þykkt.

Samninga­nefnd fé­lagsins hefur í rúman mánuð rætt við sam­tök kvik­mynda-og sjón­varps­fram­leið­enda vestan­hafs sem sjá um launa­samninga fyrir hönd stærstu stúdíóanna og streymis­veitna líkt og Amazon, App­le, Dis­n­ey, NBCUni­ver­sal, Net­flix, Paramount, Sony og Warner Bros. Discovery.

Haft er eftir Fran Drescher, for­seta fé­lags leikara, að fé­lagið hafi ekki mætt raun­veru­legum samnings­vilja af hálfu við­semj­enda sinna. Ekki sé annað í stöðunni en að grípa til verk­falls­að­gerða. Áður hafa nokkrir stór­leikarar líkt og Mer­yl Streep, Glenn Close, Jenni­fer Lawrence, Bob Oden­kirk og Mark Ruffa­lo gefið frá sér yfir­lýsingu þar sem þau segjast styðja verk­falls­að­gerðir.

Hand­rits­höfundar í Hollywood hófu sínar verk­falls­að­gerðir þann 2. maí síðast­liðinn. Ekki er út­lit fyrir að þeim að­gerðum ljúki í bráð, að því er segir í um­fjöllun Guar­dian. Mun verk­fall leikara og hand­rits­höfunda hafa víð­tæk á­hrif á efna­hag Los Angeles borgar og víðar.

Í um­fjöllun Guar­dian kemur fram að verk­fallið muni þegar í stað hafa á­hrif á markaðs­starf kvik­mynda sem koma út í sumar. Þannig hafi heims­frum­sýningu Oppen­heimer kvik­myndarinnar í leik­stjórn Christop­her Nolan sem fram fer í London í kvöld þegar verið flýtt um klukku­stund. Þá gæti svo farið að Emmy verð­launum verði frestað fram á vetur en þau eiga að fara fram í septem­ber.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×