Innlent

Lok­að verð­ur á­fram að gos­stöðv­un­um

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Gossvæðið við Litla-Hrút verður áfram lokað í dag.
Gossvæðið við Litla-Hrút verður áfram lokað í dag. Vísir/Vilhelm

Lokað verður áfram að gosstöðvunum við Litla-Hrút til að tryggja öryggi ferðamanna og viðbragðsaðila. Ákvörðunin verður endurskoðuð klukkan níu í fyrramálið á fundi viðbragsaðila.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.

Þar segir að gosstöðvarnar verði áfram lokaðar til að tryggja öryggi ferðamanna og viðbragðsaðila. Mikil mengun sé á svæðinu, ekki síst vegna gróðurelda sem hafa geisað undanfarna þrjá daga. 

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segist því miður ekki geta tryggt öryggi þeirra sem fara inn á svæðið við þessar aðstæður. Veðrið sé með versta móti og mikil mengun á svæðinu.

„Veður er svipað eins og það var í gær. Það er bálhvasst þarna upp frá og vindáttin er norðlæg þannig að gosreykur og reykur frá gróðureldum kemur inn á gönguleiðina,“ segir hann.

Slökkvistarf gengið vel

Slökkviliðsmenn í Grindavík og Landhelgisgæslan hafa unnið hörðum höndum að því að slökkva gróðurelda á gossvæðinu. Úlfar segir slökkvistarf hafa gengið vel en það þurfi að kortleggja betur útbreiðslu gróðureldanna.

„Slökkviliðinu gekk ágætlega með sitt starf í gærkvöld og inn í nóttina. En við þurfum aftur á móti að fá gleggri yfirsýn yfir svæðið norðan við gosstöðvarnar. Við þurfum að nota daginn í það,“ segir Úlfar.

Vinna gærdagsins fór í að laga gönguleiðina og þá ekki síst fyrir viðbragðsaðila segir Úlfar. Síðan sé verið að koma upp fleiri mælum á svæðinu og það nær gosstöðvunum.

Gengið vel að halda gossvæðinu lokuðu

Þrátt fyrir að gosstöðvarnar hafi verið lokaðar hefur fjöldi fólks streymt þangað í von um sjá eldgosið. Úlfar segir það ekki hafa verið vandamál að fólk sé að smeygja sér framhjá lokunarpóstum lögreglunnar.

„Ég held að það hafi örugglega ekki verið vandamál eftir lokun og í nótt. Ég myndi segja að það sé í lágmarki,“ segir Úlfar.

Gosstöðvunum var fyrst lokað á fimmtudagsmorgun. Þær verða lokaðar áfram, allavega fram í fyrramálið. Ákvörðunin verður þá endurskoðuð á fundi viðbragsaðilaklukkan níu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×