Innlent

Slógust með hníf og sög í mið­borginni

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Mennirnir slógust í miðborg Reykjavíkur.
Mennirnir slógust í miðborg Reykjavíkur. Vísir/Vilhelm

Lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu skarst í leikinn í dag þar sem tveir menn slógust með hníf og sög í mið­borg Reykja­víkur. Þetta er meðal þess sem fram kemur í dag­bók lög­reglu.

Þar segir að lög­reglan viti ekki hvað mönnunum gekk til. Þeir voru báðir hand­teknir og vistaðir í fanga­geymslur vegna málsins.

Nóg var um að vera í mið­borginni en lög­regla hafði meðal annars af­skipti af pari sem hafði verið að taka í hurða­húna. Parið reyndist vera í annar­legu á­standi og kvaðst vera að reyna að komast heim til sín. Lög­regla ók þeim heim.

Þjófnaður í kjöt­vöru­verslun og á hár­greiðslu­stofu

Þá barst lög­reglu til­kynningu um þjófnað í mið­borginni þar sem ein­stak­lingur hafði stolið tölu­verðu af kjöt­vöru. Við­komandi var við­skota­illur og hreytti fúk­yrðum í lög­reglu­menn við af­skiptin. Málið var leyst á vett­vangi.

Lög­reglu barst einnig til­kynning um inn­brot og þjófnað á hár­greiðslu­stofu í út­hverfi borgarinnar. Búið var að taka nokkuð af hár­snyrti­vörum en eig­andi var með önnur verð­mæti í tryggri hirslu. Málið er í rann­sókn.

Auk þess hafði lög­regla af­skipti af manni sem stal vörum vopnaður hnífi úr verslun í Kópa­vogi. Hann hafði hlaupið á brott en lög­regla hafði upp á honum. Hann á von á kæru vegna vopna­laga­brots og þjófnaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×