Erlent

Beindu stýriflaugum og drónum að Odessa

Samúel Karl Ólason skrifar
Gífurlega mikið magn farms getur farið í gegnum höfnina í Odessa en hún hefur verið títt skotmark Rússa frá því innrás þeirra hófst.
Gífurlega mikið magn farms getur farið í gegnum höfnina í Odessa en hún hefur verið títt skotmark Rússa frá því innrás þeirra hófst. EPA/Bo Amstrup

Rússar skutu stýriflaugum og flugu sjálfsprengidrónum að höfninni í Odessa við Svartahaf í nótt. Árásin er sögð hafa valdið skemmdum á innviðum í höfninni, sem er mikilvæg fyrir kornútflutning Úkraínumanna.

Rússar neituðu í gær að framlengja kornsamkomulagið svokallaða og ráðamenn í Rússlandi hafa einnig heitið hefndum vegna árásar Úkraínumanna á brúnna yfir Kerch-sund, sem tengir Krímskaga við meginland Rússlands.

Úkraínumenn segjast hafa skotið allar stýriflaugarnar sex niður og sömuleiðis alla drónana, en Rússar eru sagðir hafa flogið fleiri en þrjátíu Shahed-drónum að borginni frá Krímskaga. Brak úr stýriflaugunum og drónunum og sprengingar munu þó hafa ollið skaða á höfninni og íbúðarhúsnæði en einn eldri maður er sagður hafa særst, samkvæmt frétt Reuters.

Sjá einnig: Ætla ekki að leyfa útflutning korns lengur

Talsmenn úkraínska hersins í suðri segja stýriflaugarnar hafa verið skotnar niður yfir Odessa en að flestir drónanna hefðu verið skotnir niður áður en þeir náðu þangað.

Myndefni sem hefur verið í dreifingu á samfélagsmiðlum er sagt sýna hluta árásarinnar á Odessa í nótt.

Andriy Yermak, starfsmannstjóri Vólódímírs Selenskí, forseta Úkraínu, sagði í morgun að árásin væri enn ein sönnun þess að Rússar ógnuðu lífum þeirra fjögur hundruð milljóna sem treysti á matvælaútflutning frá Úkraínu.


Tengdar fréttir

Tyrklandsforseti telur sig getað talið Putin hughvarf

Rússar tilkynntu í dag að þeir ætli ekki að framlengja samkomulag sem greiðir fyrir útflutningi á korni og áburði frá Úkraínu. Þá kenna þeir Úkraínumönnum um skemmdir á brú milli Rússlands og Krímskaga síðast liðna nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×