Dr. Jóhanna Kristín Ellerup rauf þögnina fyrir þremur dögum þegar hún sendi yfirlýsingu á NBC fréttastöðina. „Ég flakka á milli þess að þrá að frændsystkini endurheimti gamla líf sitt, þegar faðir þeirra var ekki ásakaður um að vera raðmorðingi, og að vera ánægð með að nú sé einhver í haldi vegna málsins,“ segir í yfirlýsingu.
Þá sagði hún að hún ætti mjög erfitt með að vinna úr því að hún hafi horft í augu Heuermanns án þess að sjá á honum að hann hefði morð í hyggju.
Ása Guðbjörg eigi erfitt
Ása Guðbjörg sótti um skilnað frá Heuermann í síðustu viku. Í samtali við Fox af því tilefni sagði lögmaður hennar að lífi Ásu og barna hennar hefði verið snúið algerlega á hvolf. Heuermann var handtekinn í New York borg en skömmu eftir það komu lögregluþjónar á heimili þeirra hjóna og sögðu Ásu og börnum þeirra frá handtökunni og ákærunni.
Í yfirlýsingu Jóhönnu segir að hálfsystir hennar gangi nú í gegnum einstaklega erfiðan tíma í sínu lífi.
Þá sagðist hún ekki munu tjá sig frekar um málið af virðingu við fjölskyldu sína og vegna þess að hún búi ekki yfir frekari upplýsingum um málið.