Íslenski boltinn

Sjáðu táninginn úr Ár­bænum klára FH og öll hin tólf mörkin í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fylkismenn fagna marki í Kaplakrikanum í gær.
Fylkismenn fagna marki í Kaplakrikanum í gær. Vísir/Diego

Það vantaði ekki mörkin þótt að það hafi bara farið fram tveir leikir í Bestu deild karla í fótbolta í gærkvöldi.

Alls voru skoruð þrettán mörk í síðustu tveimur leikjum sextándu umferðar, sjö mörk í Keflavík og sex mörk í Kaplakrika.

KA vann 4-3 útisigur á Keflavík og Fylkir vann 4-2 útisigur á FH en bæði liðin þurftu nauðsynlega á þessum þremur stigum að halda. KA komst með þessu upp í efri hlutann og Fylkismenn komu sér upp úr fallsæti.

Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði glæsilegt sigurmark fyrir KA í Keflavík og hafði áður lagt upp mörk fyrir þá Bjarna Aðalsteinsson og Svein Margeir Hauksson. Bjarni skoraði tvö mörk með rétt rúmlega tveggja mínútna millibili undir lok fyrri hálfleiksins.

Sindri Þór Guðmundsson, Viktor Andri Hafþórsson og Ásgeir Páll Magnússon skoruðu fyrir Keflavík en liðið hefur skorað sex mörk í síðustu tveimur heimaleikjum sínum en aðeins uppskorið eitt stig samanlagt úr þeim báðum.

Varamaðurinn Ómar Björn Stefánsson kláraði FH-inga í 4-2 sigri Fylkismanna en táningurinn kom inn á í stöðunni 2-2 fimmtán mínútum fyrir leikslok. Ómar kom Fylki yfir og lagði svo upp fjórða markið fyrir Óskar Borgþórsson.

Benedikt Daríus Garðarsson og Nikulás Val Gunnarsson höfðu komið Fylki í 2-0 í fyrri hálfleik en Davíð Snær Jóhannsson og Dani Hatakka jöfnuðu metin fyrir FH.

Hér fyrir neðan má sjá öll þessi þrettán mörk úr leikjunum tveimur.

Klippa: Mörkin úr leik Keflavíkur og KA
Klippa: Mörkin úr leik FH og Fylkis



Fleiri fréttir

Sjá meira


×