Þetta kemur fram á vefsíðu umboðsmanns Alþingis.
Þar segir að úrskurðarnefnd velferðarmála hafi staðfest ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að óheimilt væri að styrkja kaup á þríhjóli þar sem fyrirhuguð notkun þess uppfyllti ekki skilyrði reglugerðar um styrki vegna hjálpartækja og laga um sjúkratryggingar.
Umboðsmaður Alþingis segir niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála hafi verið byggða á röngum grundvelli og úrskurður hennar sé í ósamræmi við lög. Því er mælst til þess að málið verði tekið aftur til meðferðar ef eftir því er leitað.
Þó segir að þar sem heilbrigðisráðuneytið hafði upplýst að unnið væri að breytingum á reglugerðarákvæðinu væri ekki ástæða til sérstakra tilmæla þar að lútandi.
Tryggja verði að börn njóti réttinda til leiks og tómstunda
Niðurstaða umboðsmanns var byggð á því að ákvæði reglugerðarinnar ætti sér ekki fullnægjandi stoð í lögum um sjúkratryggingar.
„Við setningu reglugerðarinnar hefði ráðherra borið að stuðla að því eftir föngum að fólk með fötlun gæti notið þeirra réttinda sem þeim ber að tryggja, þ. á m. að fötluð börn nytu réttinda til leiks og tómstunda,“ segir í tilkynningu umboðsmanns.
Ekki sé hægt að fallast á að hjálpartæki sem eru nauðsynleg eða hentug til tómstunda barna með fötlun falli utan laganna heldur þvert á móti verði að ganga út frá því að „vilji löggjafans hefði staðið til þess að stutt væri við þessa möguleika þeirra til jafns við önnur börn eftir því sem fært væri.“
Ráðherra hefði sömuleiðis borið að gæta þess að ekki væri þrengt um of að svigrúmi úrskurðarnefndar til að leggja mat á hvort hjálpartæki teldist nauðsynlegt eða hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs.