Erlent

Lifði af þrjá­tíu metra fall ofan í Miklagljúfur

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Suðurbrúnin við Miklagljúfur. Wyatt Kaufmann datt niður í gljúfrið af norðurbrúninni.
Suðurbrúnin við Miklagljúfur. Wyatt Kaufmann datt niður í gljúfrið af norðurbrúninni. EPA/Tatyana Zenkovich/Twitter

Þrettán ára drengur lifði af þrjátíu metra fall ofan í Miklagljúfur í Arizona á þriðjudag. Hann hafði sest á hækjur sér til að vera ekki fyrir á ljósmyndum ferðamanna þegar hann féll aftur á bak niður í gljúfrið. 

Tugir björgunarsveitarmanna tóku þátt í björgunaraðgerðum vegna falls hins þrettán ára Wyatt Kauffman og tóku þær tvo klukkutíma. Starfsmenn þjóðgarðsins við Miklagljúfur komust að endingu Kauffman og þurftu þeir síðan að síga niður með hann þar sem ekki var mögulegt að koma þyrlu að slysstaðnum. 

Kauffman var flogið á spítala og kom þar í ljós að hann var með sprungur í níu hryggjarliðum, sprungið milta, brotna hönd og samfall á lunga. Hins vegar hefur hann nú verið útskrifaður af spítala.

Vildi ekki vera fyrir og missti jafnvægið

Wyatt sagði í samtali við fréttastöðvar Í Phoenix að hann hefði verið að reyna að færa sig frá svo fólk gæti tekið myndir af gljúfrinu. Hann hafi farið á fjóra fætur og gripið í stein með annarri hendi. Hann hafi þá misst takið og dottið aftur fyrir sig.

Hann sagði í samtali við fréttastöðina KPNX í Phoenix að hann myndi ekki neitt sem gerðist eftir að hann datt. „Ég man bara eftir því að vakna aftur í sjúkrabíl og í þyrlu og að vera fluttur upp í flugvél til að koma hingað,“ sagði hann einnig.

Brian Kauffmann, faðir Wyatt, sem var á heimili þeirra í Norður-Dakóta þegar slysið átti sér stað, sagðist mjög þakklátur fyrir viðbragðsaðila. „Við erum bara heppin að fara með drenginn okkar heim í framsæti bílsins frekar en í boxi,“ sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×