Enski boltinn

Chelsea nær sam­komu­lagi um kaup á Lavia

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Romeo Lavia er á leiðinni til Chelsea.
Romeo Lavia er á leiðinni til Chelsea. EPA-EFE/VINCE MIGNOTT

Enska knattspyrnufélagið Chelsea heldur áfram að vera virkasta félagið á leikmannamarkaðnum en í kvöld var staðfest að samkomulag hefði náðst á milli liðsins og Southmapton um kaup á belgíska miðjumanninum Romeo Lavia.

Undanfarna daga hafa Chelsea og Liverpool barist um undirskriftir Moisés Caicedo og áðurnefnds Lavia. Caicedo ákvað að fara til Chelsea og verða þar með dýrasti leikmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

Vegna kaupa Chelsea á Caicedo héldu þá margir að Lavia myndi enda í Liverpool en svo er aldeilis ekki. David Ornstein, blaðamaður hjá The Athletic, staðfesti í kvöld að Chelsea og Southampton hefðu komist að samkomulagi um kaup fyrrnefnda liðsins á hinum 19 ára gamla Lavia.

Borgar Chelsea 53 milljónir punda, tæplega 9 milljarða íslenskra króna, fyrir leikmanninn. Þá gæti Southampton fengið aðrar 5 milljónir punda, 843 milljónir króna, í árangurstengdar greiðslur.

Southampton er ekki eina félagið sem græðir á þessu en Manchester City fær 20 prósent af þeirri upphæð sem Southampton græðir þar sem félagið keypti Lavia sumarið 2022 af Man City.

Lavia er áttundi leikmaðurinn sem Chelsea kaupir í sumar og verður forvitnilegt að sjá hvernig Mauricio Pochettino, tiltölulega nýráðinn þjálfari liðsins, nýtir krafta belgíska miðjumannsins.


Tengdar fréttir

Chelsea gæti stillt upp LFC miðju

Nettröllum leiðist ekki að stríða Liverpool stuðningsmönnum á skelfilegri frammistöðu Liverpool á félagsskiptamarkaðnum síðustu daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×