Íslenski boltinn

„Muri­elle er besti fram­herjinn í deildinni“

Dagur Lárusson skrifar
Donni var sáttur.
Donni var sáttur. Vísir/Hulda Margrét

Halldór Jón Sigurðsson, þjálfari Tindastóls, var að vonum ánægður með sigur síns liðs á Þrótti í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Þróttur er að elta toppliðin tvö á meðan Tindastóll er að berjast fyrir sæti sínu í deildinni.

„Já ég myndi segja að leikplanið hafi gengið upp að mestu leyti,“ byrjaði Halldór að segja í viðtali eftir leik.

„Við áttum á smá vandræðum vinstra megin í fyrri hálfleiknum. Við ætluðum að beina þeim til hægri og það virkaði ekki nógu vel og því breyttum við aðeins til í hálfleiknum, fengum auka mann á það svæði og þá gekk það betur í seinni,“ hélt Halldór áfram að segja.

„Sóknarlega þá gekk leikplanið ágætlega, við fengum færi og við skoruðum úr þeim færum tvö mörk. Við ætluðum okkur að gera þetta, semsagt treysta á skyndisóknir og það virkaði.“

Halldór vildi ekki meina að Þróttur hafi skapað sér mikið af opnum marktækifærum þó svo að þær hafi verið með boltann meira og minna allan leikinn.

„Þær voru með boltann allan leikinn en við vorum þéttar og vorum með mikið skipulag og vinnuframlagið í heildina hjá liðinu var stórkostlegt.“

Besti framherji deildarinnar?Vísir/Hulda Margrét

Halldór talaði síðan aðeins um þær Monicu og Murielle sem áttu frábæra leiki.

„Monica er auðvitað frábær markvörður og þvílík frammistaða. Við erum að lið sem hefur fengið flest skot á sig í deildinni og því hefur Monica staðið í ströngu í allt sumar. Síðan frammi er Murielle sem er besti framherjinn í deildinni, ég held að það sé engin spurning. Hún ber sóknarleikinn oft á tíðum á herðum sér, hún tekur mikið til sín og á það til að sprengja leikina upp og hún gerði það í kvöld,“ endaði Halldór að segja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×