Fótbolti

Haaland og Saka tilnefndir sem bæði besti og besti ungi leikmaður deildarinnar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Erling Braut Haaland og Bukayo Saka áttu báðir gott tímabil á síðasta tímabili.
Erling Braut Haaland og Bukayo Saka áttu báðir gott tímabil á síðasta tímabili. Tom Flathers/Manchester City FC via Getty Images

Leikmannasamtökin PFA (e. Professional Footballers Association) hafa birt lista yfir þá sex leikmenn sem eru tilnefndir sem besti leikmaður tímabilsins og þá sex sem eru tilnefndir sem besti ungi leikmaður tímabilsins á síðastatímabili í ensku úrvalsdeildinni.

Það sem vekur kannski mesta athygli er að tveir leikmenn eru tilnefndir til beggja verðlauna. Það eru þeir Erling Braut Haaland hjá Manchester City og Bukayo Saka hjá Arsenal.

Báðir áttu þeir frábært tímabil fyrir sín lið, en Haaland er nýorðinn 23 ára og Saka verður 22 ára í byrjun næsta mánaðar.

Norðmaðurinn Erling Braut Haaland skoraði alls 52 mörk í 53 leikjum í öllum keppnum fyrir City, þar af 36 í ensku úrvalsdeildinni, og átti þar af leiðandi stóran þátt í því þegar liðið vann þrennuna frægu. Englendingurinn Bukayo Saka skoraði 15 mörk fyrir Arsenal á síðasta tímabili í öllum keppnum, þar af 14 í ensku úrvalsdeildinni, ásamt því að leggja upp önnur 11.

Haaland og Saka eru þó ekki þeir einu úr sínum liðum sem tilnefndir eru því alls eru þrír leikmenn City og tveir leikmenn Arsenal á listanum yfir bestu leikmenn tímabilsins. Kevin de Bruyne og John Stones eru fulltrúar City ásamt Haaland og Martin Ødegaard er tilnefndur úr röðum Arsenal ásamt Saka. Fyrrverandi Tottenham maðurinn Harry Kane er svo sjötti maðurinn á listanum.

Þeir fjórir sem tilnendir eru ásamt Haaland og Saka sem besti ungi leikmaður tímabilsins eru þeir Moises Caicedo, sem nýlega gekk í raðir Chelsea frá Brighton, ásamt Evan Ferguson hjá Brighton, Jacob Ramsey hjá Aston Villa og Gabriel Matinelli hjá Arsenal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×