Fótbolti

„Ef við myndum gera þetta værum við dauðir“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Pep Guardiola hefur ekki trú á því að Manchester City kæmist upp með að eyða jafn háum fjárhæðum í leikmenn og Chelsea hefur gert undanfarið.
Pep Guardiola hefur ekki trú á því að Manchester City kæmist upp með að eyða jafn háum fjárhæðum í leikmenn og Chelsea hefur gert undanfarið. Alexander Hassenstein - UEFA/UEFA via Getty Images

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Englandsmeistara Manchester City, segist ekki geta ímyndað sér hversu mikilli gagnrýni félagið þyrfti að sæta ef það myndi eyða jafn miklu í leikmenn og Chelsea hefur gert undanfarið.

Chelsea gekk frá kaupum á Romeo Lavia frá Southampton í gær. Chelsea greiðir allt að 58 milljónir punda fyrir leikmanninn sem þýðir að félagið hefur eytt yfir 850 milljónum punda síðan Todd Boehly keypti liðið síðasta sumar, en það samsvarar rúmlega 143,5 milljörðum króna.

Guardiola telur þó að hans félag myndi ekki komast upp með að eyða slíkum fjárhæðum á jafn stuttum tíma.

„Það sem ég er að segja er að ef við myndum gera þetta værum við dauðir,“ sagði Guardiola á blaðamannafundi í morgun.

„Þetta er auðveldara fyrir Chelsea en okkur. Ég ætla samt ekki að gagnrýna það sem þeir eru að gera, þeir geta gert það sem þeir vilja. En ég get ekki ímyndað mér gagnrýnina sem við þyrftum að sæta.“

„Ég myndi ekki sitja hérna ef við værum búnir að eyða jafn miklu og Chelsea hefur gert í síðustu tveimur félagsskiptagluggum. Þið [fjölmiðlamenn] mynduð drepa mig.“

Chelsea hefur samtals eytt um 323 milljónum punda í átta leikmenn í félagsskiptaglugga sumarsins, meira en nokkuð annað félag í Evrópu og meira en nokkuð annað félag í heiminum hefur gert í einum sumarglugga. Real Madrid átti metið áður þegar félagið eyddi 292 milljónum punda sumarið 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×