„Ég er í skýjunum. Ég á ekki til nein orð til að lýsa þessu augnabliki,“ sagði Bonmati að leik loknum.
„Þetta er ótrúlegt. Ég er svo stolt af því við spiluðum frábært mót. Við þurftum að þjást, en við nutum þess einnig og við eigum þetta skilið.“
Spænska liðið hefur þurft að ganga í gegnum erfiða tíma undanfarið eftir að margir af leikmönnum liðsins gerðu hálfgerða uppreisn gegn þjálfaranum Jorge Vilda og vildu láta reka hann. Bonmati segir þó að það hafi ekki haft áhrif á liðið og að nú séu þær að uppskera eftir áralanga vinnu.
„Við vissum öll hvert markmiðið var í upphafi undirbúningsins fyrir mótið. Þetta eru allt einstaklingar með keppnisskap og við erum öll með gott hugarfar. Við erum búin að vera að vinna að þessu augnabliki í mörg ár og nú erum við komin með hann, komin með bikarinn,“ sagði Bonmati að lokum.