Tískutal er fastur liður á Vísi þar sem rætt er við ólíka einstaklinga um þeirra persónulega stíl og hvernig tíska nýtist þeim í daglegu lífi. Klæðaburður er sannarlega fjölbreytt listform en við fáum að skyggnast inn í ólíka fataskápa og fræðast nánar um það merkilega tjáningarform sem tíska er fyrir hverjum og einum viðmælanda.

Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?
Hvað hún breytist ört og gengur í hringi. Það er nánast annan hvern dag að eitthvað sem er löngu dottið úr tísku og margir búnir að sammælast um að sé hræðilega ljótt detti aftur inn og er allt í einu aftur orðið æðislegt.

Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?
Sko það flakkar á milli tveggja skópara sem ég eignaðist í sumar. Þá annars vegar himinhárra glimmer stígvéla sem alter egóið mitt BLOSSI vildi ólmur fjárfesta í og eru í raun hið fallegasta stofustáss.

Svo eru það brúnir leður Crocs sandalar sem ég keypti notaða í Seattle. Þeir eru dæmi um svo sérstaklega ljóta hönnun að manni finnst þeir bara frábærir.

Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?
Já, ég eyði dágóðum tíma í það sport að versla föt. Ég versla mest mengis bara notuð föt svo ég eyði meiri tíma inn í nytjabúðum í að gramsa og finna einstaka gersemar í aragrúanum af ljótum fötum sem eiga það til að vera í slíkum búðum.
Mér finnst það í raun skemmtilegra að þurfa að hafa svolítið fyrir því að finna föt sem ég vil kaupa, frekar en að fara bara beint í nýju fötin í þessum helstu fataverslunum þar sem hægt er að ganga að því vísu að flest öll fötin séu flott.
Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?
Kósý á daginn - Hot á kvöldin.

Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?
Já hann hefur svo sannarlega breyst. Ég hef gengið í gegnum mörg tímabil og ég held að fataskápurinn sé miklu meira útpældur í dag en í denn.
Ég hef alltaf farið mínar eigin leiðir í fatavali. Ég var meira segja lagður í hálfgert einelti í grunnskóla af því ég var með svo sérstakan stíl en það kom aldrei til greina að ég færi að klæða mig eins og allir hinir.

Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?
Auðveld leið fyrir mig til að fá innblástur er að eyða tíma í að fara í gegnum föt í nytjabúðum (e. second hand) og þannig fæ ég oft hugmyndir að hinum ýmsu samsetningum.
Svo skoða ég auðvitað samfélagsmiðlana góðu þar sem ég fæ beint í æð efni frá helstu stjörnum og stílistum þessa heims en tek þó aldrei beint upp frá þeim heldur reyni að vera með mínar eigin útfærslur.

Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?
Ég er ekki með nein bönn! Það verður að vera pláss til að gera tilraunir og finna sinn stíl.
Boð frá mér: Ekki vera hrædd/ur/tt.
Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?
Háu silfur tribal stígvélin sem ég átti um tíma. Þau voru iconic.
Ég píndi mig í þau nokkrum sinnum þó þau væru alltof lítil á mig og endaði svo á að losa mig við þau í stað þess höggva af mér hæl og tá eins og vondu stjúpsysturnar í Öskubusku.

Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?
Sko mig langar mest að mæla með því að fólk gefi sér tíma til að versla notuð föt. Það tekur lengri tíma en það getur verið svo skemmtilegt og er svo miklu betra fyrir umhverfið.
Hér má fylgjast með Álfgrími á samfélagsmiðlinum Instagram.