BT í Danmörku greinir frá því að gengið verði frá félagaskiptum Gylfa til Lyngby á morgun. Fyrir helgi var greint frá því að Gylfi hefði náð munnlegu samkomulagi við Lyngby.
Hjá Lyngby hittir Gylfi fyrir fjóra Íslendinga; þjálfarann Frey Alexandersson og leikmennina Sævar Atla Magnússon, Andra Lucas Guðjohnsen og Kolbein Finnsson.
Gylfi hefur verið án félags síðan samningur hans við enska úrvalsdeildarfélagið Everton rann út sumarið 2022. Hann hefur ekki spilað fótboltaleik síðan í maí 2021 en hann var handtekinn síðar það sumar vegna gruns um brot gegn ólögráða einstaklingi.
Í apríl síðastliðnum lýsti lögreglan í Manchester því hins vegar yfir að sönnunargögn „næðu ekki þeim þröskuldi sem fellur að reglum saksóknara krúnunnar“, og var Gylfi þar með laus allra mála.
Lyngby er í 9. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með sjö stig eftir sex leiki. Næsti leikur liðsins er gegn Nordsjælland á sunnudaginn.