Fótbolti

Úrvalsdeildarfélögin bættu eyðslumetið um tæpa 74 milljarða

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Chelsea fór mikinn á leikmannamarkaðinum í sumar. Félagið keypti meðal annars Moises Caicedo á um hundrað milljónir punda.
Chelsea fór mikinn á leikmannamarkaðinum í sumar. Félagið keypti meðal annars Moises Caicedo á um hundrað milljónir punda. Sebastian Frej/MB Media/Getty Images

Félagsskiptagluggi stærstu deilda Evrópu lokaði í gær og eins og svo oft áður var nóg að gera hjá félögum í ensku úrvalsdeildinni. Aldrei hafa félög þar í landi eytt jafn háum fjárhæðum í einum glugga eins og nú.

Félögum í ensku úrvalsdeildinni tókst að eyða 2,36 milljörðum punda í leikmannakaup sem samsvarar um 395 milljörðum íslenskra króna. Áður höfðu félög ensku úrvalsdeildarinnar mest eytt 1,92 milljörðum punda í leikmenn í einum glugga og er munurinn á þessum tveimur gluggum því um 440 milljónir punda.

Í íslenskum krónum talið bættu félögin metið því um tæplega 73,7 milljarða króna.

Það er fjármálafyrirtækið Deloitte sem tekur saman helstu tölur félagsskiptagluggans, en þar kemur meðal annars fram að félög deildarinnar hafi eytt 255 milljónum punda á lokadegi gluggans sem fram fór í gær. Það er rúmlega tvöfalt meira en félögin eyddu á lokadeginum í fyrra þar sem eyðslan náði 120 milljónum punda.

Þá hefur það aðeins einu sinni gerst að félög hafi eytt meiru en tímabilið 2023-2024 sem nú er nýhafið. Það gerðist á síðasta tímabili þegar félögin eyddu 2,37 milljörðum punda og verður að teljast líklegt að það met verði slegið ansi fljótt þegar janúarglugginn opnar eftir áramót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×