Fótbolti

Haaland telur að annað mark City hafi ekki átt að standa

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Erling Braut Haaland segir að annað mark Manchester City gegn Fulham í gær hafi ekki átt að standa.
Erling Braut Haaland segir að annað mark Manchester City gegn Fulham í gær hafi ekki átt að standa. Robbie Jay Barratt - AMA/Getty Images

Erling Braut Haaland, framherji Manchester City, telur að annað mark liðsins í 5-1 sigri gegn Fulham í ensku úrvalsdeildinni í gær hafi ekki átt að fá að standa.

Nathan Ake skoraði annað mark City á fimmtu mínútu uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar hann skallaði fyrirgjöf Phil Foden í netið. Manuel Akanji, varnarmaður City, var hins vegar rangstæður og virtist trufla Bernd Leno, markvörð Fulham, sem hikaði áður en hann skutlaði sér á eftir boltanum.

Hvorki Michael Oliver, dómari leiksins, né Tony Harrington sem staddur var í VAR-herberginu, sáu þó ástæðu til að dæma markið af. 

Eins og gefur að skilja var Marco Silva, þjálfari Fulham, afar ósáttur við ákvörðunina og sagði í viðtali eftir leik að allir sem hafi eitthvað vit á fótbolta séu hundrað prósent vissir um að markið hafi verið ólöglegt. 

Norski framherjinn Erling Braut Haaland, sem skoraði þrennu fyrir City í leiknum, var sammála Silva og viðurkenndi að markið hafi líklega ekki átt að standa.

„Þetta var rangstaða,“ sagði Haaland í viðtali við beIN Sports að leik loknum.

„Ég vorkenni þeim því ég hefði verið brjálaður ef ég hefði verið í þeirra sporum. Þetta er ömurleg tilfinning.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×