Í gær bárust fréttir af því að eigendur Manchester United, Glazer-fjölskyldan, væru hættir við að selja félagið í bili að minnsta kosti. Þeir ætli að bíða til ársins 2025 þar sem þeir telja sig geta fengið mun hærra verð eftir biðina.
Neville, sem á sínum tíma lék 400 deildarleiki fyrir United frá 1992 til 2011, er allt annað en sáttur við þetta nýjasta útspil Glazer-fjölskyldunnar. Hann sakar eigendurna um að vera í leik og nota félagið sem leikfang.
„Fyrir þeim er þetta bara leikur og þeir halda að félagið sé leikfang,“ sagði Neville í setti hjá Sky Sports eftir 3-1 tap Manchester United gegn Arsenal í gær. „Auðvitað eru þeir að fara að selja. Þeim sárvantar peninga.“
„Þeir geta ekki einu sinni haldið sig innan við FFP-reglurnar lengur. Eins og staðan er í dag talar Manchester United eins og einhver miðlungsklúbbur þegar það kemur að félagsskiptamarkaðnum. Félagið veltir yfir 500 milljónum punda á ári. Þetta er eitt tekjuhæsta félag heims,“ bætti Neville við.
„Lið eins og Chelsea og Arsenal geta keypt stór nöfn, en Manchester United þarf að hafa áhyggjur af FFP. Ég veit að félagið tapaði peningum í Covid og mögulega er hægt að nota það sem einhvers konar afsökun.“
„Við fengum að sjá frábæran leik í dag [í gær], en það breytir ekki þeirri staðreynd að þetta eru eigendur eins stærsta félags í heimi sem eru að rugla í klúbbnum. Ég mun ekki hætta að tala um þetta því þetta er risastórt vandamál.“